El Salvador hefur gert 1,4 milljarða dala lánasamning við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eftir að hafa samþykkt að draga úr rafmyntavæðingu sinni. Árið 2021 var þjóðin sú fyrsta í heiminum til að gera Bitcoin að gjaldmiðli.

Framkvæmdastjórn AGS á enn eftir að samþykkja samninginn en sjóðurinn hafði lengi vel andmælt rafmyntastefnu Nayib Bukele, forseta El Salvador.

Fyrr í þessum mánuði braut Bitcoin hundrað þúsund dala múrinn í fyrsta sinn og sagði Bukele í færslu á samfélagsmiðlum að eignir landsins í rafmyntinni hefðu meira en tvöfaldast.

Verðmæti Bitcoin stendur nú í 108 þúsund dali og hefur hækkað umtalsvert eftir sigur Donalds Trumps í bandarísku forsetakosningunum í nóvember. Búist er við því að komandi stjórn hans muni sýna mun vingjarnlegri stefnu gagnvart rafmyntinni en stjórn Biden.