Í morgun voru kynntar niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2022 og er þetta 24 árið sem ánægja íslenskra fyrirtækja er mæld með þessum hætti. Handhafar viðurkenningarinnar í ár eru eldsneytissala Costco, Nova, Apótekarinn, IKEA, Krónan, Byko, Orka náttúrunnar og Sjóvá.
Costco eldsneyti var með marktækt hæstu einkunn allra fyrirtækja sem mæld voru í Ánægjuvoginni og hafa fengið þá nafnbót frá því þau komu inn á íslenska markaðinn árið 2017. Þetta var því sjötta árið í röð sem eldsneytissala Costco trónir á toppnum.
Að þessu sinni eru niðurstöður birtar fyrir 40 fyrirtæki í 14 atvinnugreinum. Einungis er veitt þeim fyrirtækjum sem eru með tölfræðilega marktækt hæstu einkunnina í viðkomandi atvinnugrein, þ.e. þar sem segja má með 95% vissu að viðskiptavinir fyrirtækisins með hæstu einkunnina séu að jafnaði ánægðari en viðskiptavinir fyrirtækisins með næsthæstu einkunnina.