Úrvalsvísitalan hefur fallið um meira en 1% í fyrstu viðskiptum eftir opnun Kauphallarinnar í morgun. Gera má ráð fyrir að lækkanir megi að stórum hluta rekja til nýrra verðbólgutalna Hagstofunnar en til samanburðar hefur evrópska hlutabréfavísitalan Stoxx 600 hækkað um meira en 1% í morgun og breska FTSE 100 hækkað um 0,8%.

Verðbólgan mældist 10,2% í febrúar samanborið við 9,9% í janúar. Greiningardeildir bankanna höfðu spáð því að verðbólgan myndi hjaðna niður í 9,6%.

Þegar fréttin er skrifuð hafa sjö félög aðalmarkaðarins lækkað um meira en 2%. Þar af hefur Arion banki lækkað mest eða um 3,3% í hundrað milljóna velt.

Ávöxtunarkrafa á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum hefur hækkað um 18-40 punkta í morgun. Þá hefur ávöxtunarkrafa á styttri verðtryggðum ríkisskuldabréfum lækkað talsvert í fyrstu viðskiptum. Verðbólguálag jókst því talsvert í morgun.