Úrvalsvísitalan hefur lækkað um um 1,3% í 2 milljarða króna veltu í dag. Öll félög á aðalmarkaðnum nema Síminn og Nova hafa lækkað það sem af er degi. Um 523 milljóna króna viðskipti með 3,3% hlut í Nova á genginu 4,18 krónur fór í gegn í hádeginu í dag.
Alvotech, VÍS, Kvika banki og Icelandair leiða lækkanir en hlutabréf félaganna þriggja hafa fallið um meira en 2%.
Hlutabréfaverð Icelandair hefur fallið um nærri 3% í 57 milljóna króna viðskiptum og stendur nú í 1,63 krónum á hlut. Til samanburðar var dagslokagengi Icelandair síðast jafnlágt í júlí síðastliðnum.
Lækkanir í Kauphöllinni má að líkindum rekja til þróunar á erlendum hlutabréfamörkuðum. Helstu vísitölur Bandaríkjanna féllu um 0,5%-1,5% í gær. Þá hefur Stoxx Europe 600 vísitalan fallið um 0,2% í dag. Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í morgun við ákvörðun Seðlabanka Japans um að víka vikmörk fyrir kröfu tíu ára ríkisbréfa en hafa að stórum hluta rétt úr kútnum.