Eldur Ólafs­son, for­stjóri og stofnandi Amaroq Minerals, keypti milli jóla og ný­árs 59,800 hluti til við­bótar í fyrir­tækinu. Hann á því nú um rúm­lega 9,1 milljón hluti í Amaroq sem sam­svarar 3,45% hlut í fé­laginu.

Sam­kvæmt til­kynningu til Kaup­hallarinnar í Tor­onto keypti Eldur 33.800 hluti á meðal­sverðinu 1,1315 kanadískra dollara sem sam­svarar 116,8 krónur á gengi dagsins en við­skiptin fóru fram 27. desember.

Eignarhlutur Elds metinn á yfir milljarð

Tveimur dögum síðar keypti Eldur 26.000 hluti á meðal­tals­verðinu 1,1786 kanadískum dollara sem sam­svarar 121,7 krónum á gengi dagsins í dag.

Heildar­kaup­verðið nam því 68.937,30 kanadískum dollurum sem sam­svarar rúm­lega 7,1 milljón króna á gengi dagsins.

Dagsloka­gengi Amaroq var 120 krónur á hlut en sam­kvæmt Keldunni er markaðs­virði fyrir­tækisins 30,856 milljarðar króna. Eignar­hlutur Elds eftir við­skiptin er metinn á 1,065 milljarða króna.

Amaroq, sem fór á Aðal­markað í Kaup­höllinni í fyrra, hækkaði mest allra skráðra fé­laga í Kaup­höllinni en gengi málm­leitar­fé­lagsins hækkaði um 53% í fyrra.