Elizabeth Holmes, stofnandi og fyrrverandi forstjóri Theranos, hefur tapað áfrýjun í svikamáli sem tengist fyrrum blóðrannsóknarfyrirtæki sínu. Holmes var dæmd í 11 ára fangelsi fyrir fjársvik í nóvember árið 2022.

Á vef BBC segir að Holmes hafi mótmælt þeim sönnunargögnum og vitnisburðum í réttarhöldunum og sagt að þáverandi samstarfsmaður hennar og elskhugi, Ramesh Balwani, hafi borið ábyrgð á viðskiptamódeli fyrirtækisins.

Áfrýjunardómstóllinn hafnaði rökum Holmes og sagði dómarinn Jacqueline H Nguyen að fullyrðingar Theranos um að geta tekið blóðprufu með blóðdropa í stað nálar í æð væru út í hött. „Afrek þeirra Holmes og Balwani voru byggð á bæði hálfsannleik og beinum lygum.“

Dómstóllinn staðfesti einnig 452 milljóna dala skaðabótakröfu sem Holmes og Balwani voru dæmd til greiða fórnarlömbum í málinu.

Theranos var eitt sinn metið á níu milljarða dala, eða um 1.200 milljarða króna, en síðla árs 2015 leiddi fréttaflutningur í ljós að fyrirtækið væri byggt á sandi. Meðal fjárfesta var lyfjaverslunarrisinn Walgreens, Rupert Murdoch og Larry Ellison, meðstofnandi Oracle.