Niðurstaða liggur fyrir í máli Elkem gegn íslenska ríkinu, sem var höfðað til ógildingar úrskurðar Ríkisskattstjóra þar sem frádráttarbærni vaxtagjalda á grundvelli skuldabréfs var hafnað. Féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á kröfu Elkem um ógildingu úrskurðarins. Ákvæði tekjuskattslaga um óvenjuleg skipti í fjármálum ættu ekki við um atvik málsins, sem féllu undir ákvæði tekjuskattslaga um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri.

Forsaga málsins er sú að Elkem ASA, móðurfélag Elkem á Íslandi, tók þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands í tengslum við fjárfestingarleið bankans og keypti í framhaldinu skuldabréf sem dótturfélagið á Íslandi hafði gefið út. Fjárhæð skuldabréfsins var tæpir 1,8 milljarðar króna og bar bréfið 9% vexti. Í hnotskurn greindi aðila á um hvort þau ákvæði tekjuskattslaga sem fjalla um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri og óvenjuleg skipti í fjármálum ættu bæði við í málinu. Það var óumdeilt að lánið hefði uppfyllt öll skilyrði frádráttar samkvæmt lögum. Aftur á móti vildi Ríkisskattstjóri meina að síðarnefnda ákvæðið um skattasniðgöngu vegna viðskipta tengdra aðila ætti við um atvik máls.

Í máli Jóns Elvars Guðmundssonar, lögmanns Elkem, fyrir dómi var því alfarið hafnað að um skattasniðgöngu hefði verið að ræða. Hann benti á að á meðan meint skattasniðganga fælist í því að vaxtafrádráttur Elkem drægi úr skattskyldum tekjum í 20% skatthlutfalli teldust vextirnir skattskyldar tekjur móðurfélagsins í Noregi í 28% skatthlutfalli. Í niðurstöðu dómsins er sú staðreynd, að tilgangur viðskiptanna hafi ekki verið sá að flytja tekjur til lands með lægra skatthlutfall, talin skipta máli við mat á því hvort ákvæði um skattasniðgöngu vegna viðskipta tengdra aðila yrði beitt.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði