Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt á dögunum, þeim fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Elko var valið Menntafyrirtæki ársins og Bara tala hlaut Menntasprotann 2024.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og framkvæmdastjóri SA afhentu verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu á miðvikudaginn.
„Ljóst er að stefnumiðuð og markviss vinna í fræðslumálum starfsfólks hefur lagt grunn að mjög góðum árangri í þeirri vegferð fyrirtækisins að auka ánægju starfsfólks og fylgja stefnunni eftir um ánægðustu viðskiptavinina,“ segir í tilkynningu frá Elko.
Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.
