Samkvæmt ársreikningi Berkshire Hathaway átti félagið 334,2 milljarða dala í reiðufé undir lok árs, sem nemur 46 þúsund milljörðum króna – sem jafngildir nærri ellefufaldri landsframleiðslu Íslands.
Ársreikningur Berkshire Hathaway var birtur í dag.
Samstæðan skilaði rekstrarhagnaði upp á 47,4 milljarða dala á árinu, samanborið við 37,4 milljarða dala árið 2023. Betri árangur milli ára skýrist af betri frammistöðu tryggingarhluta Berkshire, að því er kemur fram í ársreikningi.
Berkshire seldi hlutabréf fyrir samtals 143 milljarða dala á árinu 2024, sem er langt umfram þá níu milljarða dala sem félagið fjárfesti í hlutabréfum. Þar af dróst eignarhlutur félagsins í skráðum bréfum um 82 milljarða dala milli ára og nam 272 milljörðum dala í lok árs.
Andvirðið var að langmestu leyti fjárfest í ríkisskuldabréfum til skemmri tíma, eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um á undanförnum misserum.
Þá greiddi fyrirtækið 26,8 milljarða dala í skatt á árinu, mest allra félaga vestanhafs. Þannig bendir Buffett á í bréfinu til hluthafa að upphæðin nemi 5% af öllum fyrirtækjaskatti sem greiddur var til bandaríska ríkisins á árinu.
Í bréfi Buffett til hluthafa sagði hann að félagið muni nýta reiðuféð sem hefur safnast upp á árinu til að fjárfesta í hlutabréfum fremur en skuldabréfum. Það verði áfram fjárfestingarstefna félagsins.
„Þrátt fyrir að sumir greinendur telji núverandi sjóðsstöðu Berkshire Hathaway óvenjulega háa, þá heldur félagið áfram að fjárfesta meirihluta fjármuna sinna í hlutabréfum. Sú stefna mun ekki breytast. […] Hluthafar Berkshire geta verið vissir um að félagið mun áfram fjárfesta talsvert í hlutabréfum – aðallega bandarískum hlutabréfum. Berkshire mun aldrei kjósa að eiga reiðufé fram yfir það að eiga í arðbærum fyrirtækjum, sama hvort um sé að ræða ráðandi hlut eða lítinn hlut.“