Ellert B. Schram, fv. ritstjóri og þingmaður, lést í nótt, 85 ára að aldri. Ellert fæddist í Reykjavík 10. október 1939 og voru foreldrar hans Björgvin Schram, stórkaupmaður í Reykjavík, og Aldís Þorbjörg Brynjólfsdóttir húsmóðir.
Á vef mbl.is kemur fram að Ellert hafi lokið embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1966 og öðlaðist lögmannsréttindi sama ár.
Ellert var blaðamaður á Vísi, vann á málflutningsskrifstofu Eyjólfs K. Jónssonar og fleiri 1965 og 1966, var skrifstofustjóri borgarverkfræðings 1966-71, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins 1971-79 og 1983-87, alþingismaður Samfylkingarinnar 2007-2009 og hefur verið varaþingmaður, síðast árið 2019. Hann var ritstjóri Vísis og DV 1980-95, formaður KSÍ 1973-89, forseti ÍSÍ 1991-97 og forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, ÍSÍ, 1997-2006.
Ellert var þar að auki formaður Íslenskrar getspár, ritstjóri KR-blaðsins, Úlfljóts, Stefnis og bókarinnar KR, Fyrstu hundrað árin, sem var samin og útgefin í tilefni aldarafmælis KR 1999.
Hann var einnig Formaður Stúdentaráðs HÍ, formaður SUS 1969-73, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1969-73 og 1978-81, í Rannsóknarráði ríkisins 1971-80, var fulltrúi Alþingis á allsherjarþingi Sþ 1972, sat á þingi Alþjóðaþingmannasamtakanna 1971-79, var fulltrúi Íslands í þingmannanefnd EFTA 1983, sat í Útvarpsráði 1975-83 og fulltrúi Alþingis hjá Evrópuráðinu 2007-2008. Ellert sat í stjórn Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) 1982-86 og 1990-94, var einn af varaforsetum UEFA 1984-86 og gegndi áhrifastörfum fyrir UEFA allt til 2010.