Elma orkuviðskipti, dótturfélag Landsnets, hefur gengið frá samstarfssamningi við Nord Pool um opnun fyrsta skammtíma raforkumarkaðar á Íslandi.
„Stefnt er að því að fara í loftið í ársbyrjun 2025 og á þeim tímapunkti mun Elma bjóða uppá uppboðsmarkað fyrir lengri og skemmri vöru – alla virðiskeðjuna á orkumarkaði,“ segir í tilkynningu sem Elma sendi frá sér í morgun.
Skammtímamarkaður Elmu mun í fyrstu bjóða uppá uppboðsmarkað með dags fyrirvara (e. day-a-head) og stefnir í framhaldinu að bæta við viðskiptum innan dagsins (e. intraday market). Um er að ræða viðbót við vöruframboð Elmu orkuviðskipta, sem nýverið tók upp rafrænt uppboðskerfi fyrir langtímasamninga í samstarfi við króatísku kauphöllina fyrir raforku.
„Við hjá Elma fögnum því að hafa gengið frá samningi sem hjálpar okkur að koma á fót virkum viðskiptavettvangi með skýru verðmerki á markaði sem veitir upplýsingar um stöðuna á orkumarkaði – Kauphöll orkuviðskipta. Þetta er stórt skref fyrir Ísland, álíka því þegar Verðbréfaþing Íslands var stofnað (nú Nasdaq Ísland) sem og fiskmarkaðir. Með því að bjóða uppá traustan og gagnsæjan viðskiptavettvang mun Elma taka virkan þátt í að búa til samkeppnishæft umhverfi þar sem verðmyndun er gagnsæ. Slíkt umhverfi stuðlar að nýsköpun, ýtir undir orkunýtni og styður við aukið orkuöryggi. Við hjá Elmu erum spennt fyrir samstarfi með Nord Pool, sem er leiðandi kauphöll með raforku í Evrópu. Með stofnun slíks markaðar erum við að nýta orkuna okkar miklu betur og þannig taka þátt í hringrásarhagkerfi,“ segir Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Elmu.
„Við erum ánægð með að hafa landað samningi í kjölfar samkeppnishæfs ferlis Elmu orkuviðskipta, um samstarf að koma á fót virkum viðskiptavettvangi fyrir raforku fyrir skammtíma raforkuviðskipti. Að starfrækja skipulagðan orkumarkað – virkan viðskiptavettvang - í fyrsta sinn er stórt framfaraskref fyrir Ísland sem mun hafa í för með sér ávinning hvað varðar skilvirkni, gagnsæi, áreiðanleika fjárfestingarmerkja og eflingu afhendingaröryggis. Nord Pool teymið allt hlakkar til að vinna náið með Elmu og gera framtíðarsýn fyrirtækisins um að koma á hagkvæmum og öruggum orkuviðskiptum á Íslandi að veruleika,” er haft eftir Tom Darell, forstjóra Nord Pool.
Þess má geta að fyrirtækið Vonarskarð hóf rekstur á raforkukauphöll í síðasta mánuði þar sem viðskipti á heilsölumarkaði fara fram.
Landsvirkjun tilkynnti í byrjun vikunnar um þátttöku í söluferli fyrir langtímavörur, þ.e. grunnorku og mánaðarblokkir, sem Vonarskarð hefur auglýst fyrir maí og júní . Fyrra söluferlið fyrir grunnorku var á mánudaginn þar sem Landsvirkjun seldi rúmlega 90 GWst af raforku fyrir um 700 milljónir króna.