Bandarísku sjónvarpsþættirnir Sesame Street hafa gert samning við Netflix um birtingu barnaþáttanna. Donald Trump tók ákvörðun fyrr í þessum mánuði að hætta við að fjármagna sjónvarpsstöðina PBS, sem hafði sýnt þættina í áratugi.
Á vef BBC segir að Netflix líti á þáttinn sem ástkæran hornstein meðal barnamiðla sem hafi heillað unga krakka og hjálpað þeim að læra.
Netflix mun bjóða 300 milljónum áskrifenda aðgengi að nýjum þáttaröðum ásamt 90 klukkustundum af gömlu efni frá Sesame Street. Þættirnir verða þó enn aðgengilegir á PBS en samkvæmt samningnum fær sú stöð aðgang að nýjum þáttum sama dag og þeir koma út á Netflix.
Þátturinn var fyrst sýndur 10. nóvember 1969 og síðan þá hafa milljónir barna alist upp við persónur þáttanna eins og Elmo og Big Bird.
Stofnendur Sesame Street, Lloyd Morrisett og Joan Ganz Cooney, leituðu jafnframt til Harvard og unnu með sálfræðingum og Jim Henson, höfundi Muppets-þáttanna, til að kenna börnum með skemmtilegum kennslustundum.