Markaðsráðstefnan RIMC (Reykjavik Internet Marketing Conference), sem haldin verður í september, fagnar 20 ára afmæli á þessu ári. Í ár verður ráðstefnan haldin með yfirskriftinni Á öldum tækninnar þar sem lögð verður áhersla á breytingu gervigreindar á starfsumhverfi.
Aðalfyrirlesararnir koma frá stórfyrirtækjum á borð við Google, Ikea, Getty Images og TBWA. Þar að auki verða markaðsráðgjafar frá Four Seasons, Vodafone og eBay.
„Það er ótrúlegt að sjá hversu hratt gervigreind er að breyta leikreglunum. Við sjáum gervigreind ekki aðeins hafa áhrif á markaðssetningu, heldur einnig á alla þætti rekstrar og stjórnunar,“ segir Hreggviður Magnússon, framkvæmdastjóri The Engine Nordic.
Í tilkynningu segir að átta af hverjum tíu markaðsstjórum séu vongóðir um að gervigreind muni hafa jákvæð áhrif á markaðsmál á þessu ári samkvæmt könnun Gartner. Enn fremur er 25% fyrirtækja nú þegar að skipuleggja innleiðingu á tækni tengdri gervigreind á næstu sex mánuðum.