BTX Group sem á meðal annars Brandtex, elsta tískuhús Danmerkur, varð gjaldþrota á dögunum en samkvæmt Børseneru allar líkur á að gjaldþrotum meðal danskra tískuhúsa muni halda áfram að fjölga á næstu mánuðum.
Síðastliðið haust varð Wood Wood, sem hefur verið eitt vinsælasta fatamerki meðal danskra karlmanna síðastliðna áratugi, gjaldþrota.
Jens Obel, meðeigandi DK Company, sem keypti þrotabú Wood Wood, segist eiga von á enn frekari samþjöppun á markaði en fjölmörg tískuhús eru í miklum vandræðum.
„Virkilega sorglegt að sjá“
Móðurfélög Minimum, Bertoni Group, Custommade og Espirit eru meðal tískuhúsa sem hafa farið á hausinn í Danmörku síðastliðið ár.
Nær öll fyrirtækin höfðu verið starfandi í meira en tuttugu ár í Danmörku.
„Það er virkilega sorglegt að sjá stór og virt fyrirtæki verða gjaldþrota en þetta eru mjög erfiðir tímar,“ segir Thomas Klausen, formaður samtaka danskra fataverslana.
BTX Group, sem varð gjaldþrota í síðustu viku, ákvað í árslok 2022 að kaupa 100 fataverslanir á Ítalíu en skuldsetning félagsins í kjölfarið varð því að falli.
Jan Bruun Jørgensen skiptastjóri þrotabúsins segir í samtali við Børsen að á endanum vildu hvorki lánastofnanir né eigendur leggja félaginu til meira fé.