Embla Medical, móðurfélag Össurar, hagnaðist um 12 milljónir dala eða um 1,7 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi sem samsvarar 6% af veltu. Stoðtækjaframleiðandinn birti ársuppgjör í morgun.

Sala Emblu á fyrsta ársfjórðungi 2025 nam 203 milljónum Bandaríkjadala, eða um 28 milljörðum íslenskra króna, sem samsvarar 4% innri vexti.

„Sala var drifin af góðum vexti í sölu á stoðtækjum, sérstaklega í Evrópu og Asíu. Við héldum áfram að kynna nýju gervigreindarhnéin okkar, Navii® og Icon®, á okkar helstu markaðssvæðum með mjög góðum undirtektum. Bæði Navii og Icon eru nýjungar sem gera okkur kleift að ná til enn fleiri einstaklinga sem þurfa á bættri hreyfigetu að halda og því virkilega ánægjulegt að sjá árangur þess að fjárfesta í nýsköpun,“ segir Sveinn Sölvason, forstjóri Össurar.

Á fjórðungnum var 9% innri vöxtur í sölu á stoðtækjum á meðan tekjur á spelkum og stuðningsvörum ásamt þjónustu við sjúklinga var óbreytt frá fyrra ári.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 36 milljónum Bandaríkjadala, eða um 5 milljörðum íslenskra króna‏. Það samsvarar um 18% af veltu samanborið við 17% af veltu á fyrsta ársfjórðungi 2024.

„Við skiluðum góðum rekstrarhagnaði í fjórðungnum og nam EBITDA framlegð 18% af veltu samanborið við 17% á sama fjórðungi síðasta árs. Góða rekstrarniðurstöðu í fjórðungnum má rekja til aukinnar hagkvæmni í framleiðslu ásamt kostnaðaraðhaldi í rekstri,“ segir Sveinn.

Aðlagast ef þörf krefur

Hann segir að áfram ríki mikil óvissa um hvernig tollamál muni þróast en sem stendur muni helstu áhrifin verða á innflutning á spelkum og stuðningsvörum frá Kína til Bandaríkjanna.

„Ef þörf er á, munum við aðlaga félagið að ytra umhverfinu og gera breytingar til að mæta auknum kostnaði. Áhrif á félagið vegna innflutnings frá öðrum löndum, þar með talið Íslandi, eru talin vera óveruleg að svo stöddu. Mikilvægt er að muna að þörfin fyrir lausnir á borð við okkar mun áfram vera mikil og við erum einbeitt sem fyrr að bæta hreyfanleika fólks.“