Embla Medical, móðurfélag Össurar, hagnaðist um 21 milljón dala á öðrum ársfjórðungi eða sem nemur ríflega 2,7 milljörðum íslenskra króna, en það samsvarar 9% af veltu. Hagnaður Emblu á öðrum ársfjórðungi jókst um 5% milli ára.
Stoðtækjaframleiðandinn birti árshlutauppgjör í morgun.
Sala samstæðunnar á öðrum ársfjórðungi nam 232 milljónum dala eða tæplega 30 milljörðum íslenskra króna. Það samsvarar 7% heildarvexti og 5% innri vexti.
Innri vöxtur í sölu á stoðtækjum nam 9% á fjórðungnum, á meðan tekjur af spelkum og stuðningsvörum lækkuðu um 2%. Tekjur af þjónustu við sjúklinga voru óbreyttar frá sama tímabili í fyrra.
„Vöxturinn var einkum drifinn áfram af aukinni sölu á stoðtækjum, sérstaklega í Evrópu, þar sem nýjar vörur voru kynntar til sögunnar á árinu, þar á meðal koltrefjafótur og hátæknihné sem hafa hlotið góðar undirtektir. Söluvöxtur í Ameríku og Asíu var einnig góður, aðallega vegna stoðtækjasölu, á meðan tekjur af þjónustu við sjúklinga stóðu í stað og sala á spelkum og stuðningsvörum dróst lítillega saman,“ segir Sveinn Sölvason, forstjóri Emblu Medical.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) hjá Emblu nam 49 milljónum dala eða 6,3 milljörðum íslenskra króna. Það jafngildir 21% EBITDA framlegð á fjórðungnum, samanborið við 22% á öðrum ársfjórðungi 2024.
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 gerir nú ráð fyrir 5–6% innri vexti (áður 5–8%) og 20–21% EBITDA framlegð, að teknu tilliti til einskiptisliða.
Á fjórðungnum keypti félagið 627.624 eigin bréf fyrir samtals 3 milljónir dala eða um 0,4 milljarða íslenskra króna.
Sveinn: Óvissa ríkir enn um tollamál
„Óvissa ríkir enn um þróun tollamála, en að svo stöddu beinast áhrifin fyrst og fremst að innflutningi á spelkum og stuðningsvörum frá Kína til Bandaríkjanna. Ef aðstæður breytast mun félagið bregðast við með viðeigandi aðlögunum til að mæta auknum kostnaði. Möguleg áhrif á innflutning frá öðrum löndum, þar á meðal frá Íslandi, eru talin óveruleg að svo stöddu,“ segir Sveinn.
„Þrátt fyrir ytri áskoranir er áfram mikil þörf fyrir lausnir á borð við þær sem félagið býður upp á. Við höldum áfram að einbeita okkur að því að bæta hreyfanleika fólks og styðja við lífsgæði þeirra sem þurfa á vörunum okkar að halda.”