Embla Medical, móðurfélag Össurar, tilkynnti í dag um kaup á 51% hlut í þýska stoðtækjafyrirtækinu Streifeneder ortho.production GmbH eftir að þýskir eftirlitsaðilar samþykktu viðskiptin.
Streifeneder framleiðir og dreifir stoð- og stuðningstækjum á alþjóðamarkaði og hefur um 100 starfsmenn.
Samkvæmt tilkynningu Embla Medical nam sala Streifeneder um 25 milljónum evra árið 2024, sem jafngildir um 3,7 milljörðum íslenskra króna.
Um 70% af tekjunum koma frá stoðtækjum, íhlutum þeirra og stuðningsvörum. Meirihluti sölu fer fram í Þýskalandi, en fyrirtækið starfar einnig á mörkuðum víða í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu.
Í tengslum við kaupin hefur stjórn Embla Medical ákveðið að gefa út 2.805.135 nýja hluti í félaginu.
Heildarhlutafé hækkar þar með um 0,7%, úr 427,6 milljónum króna í 430,4 milljónir króna. Áskriftarverð hvers hlutar er 33,26 danskar krónur og nemur virði hlutafjáraukningarinnar 93 milljónum danskra króna eða um 12,5 milljónum evra.
Hluthafar Streifeneder munu skrá sig fyrir öllum nýju hlutunum.
Sveinn Sölvason, forstjóri Embla Medical, segir kaupin mikilvæg fyrir frekari vöxt félagsins:
„Kaupin á Streifeneder falla vel að vaxtarstefnu okkar og gera okkur kleift að ná til fleiri sjúklinga með breiðara vöruúrvali og heildarlausnum á stoðtækjamarkaði. Auk þess styrkjum við stöðu okkar á lykilmörkuðum sem og nýjum markaðssvæðum. Sameiginlegt vöruframboð undir merkjum Össurar og Streifeneder mun nýtast bæði viðskiptavinum og sjúklingum um allan heim.“