Barnafataverslunin Emil&Lína opnaði um helgina við Laugaveg 53b en fatalínan sækir innblástur úr sagnhefð Íslendinga ásamt íslenskri náttúru. Emil&Lína kom fyrst fram árið 2009 í formi Facebook-síðu sem stofnuð var af Lóu D. Kristjánsdóttur.

Viðskiptablaðið greindi fyrst frá áformum Lóu og Alberts Þórs Magnússonar um að opna fataverslunina í október í fyrra.

Þá hafði Dimmalimm, ein elsta barnafataverslun landsins, verið nýlega seld til Lóu og Alberts en þau eru jafnframt umboðsaðilar Lindex á Íslandi. Hjónin vildu þá endurvekja hið umrædda barnafatamerki sem þau byrjuðu með í Svíþjóð fyrir rúmum 15 árum síðan.

„Þetta er búið að vera alveg stórkostlegt ævintýri. Það að vinna í þessu skapandi umhverfi og gera það með hliðsjón af íslenskri náttúru og að geta fært íslensku sveitina inn á Laugaveginn er alveg stórkostlegt,“ sagði Albert í samtali við Viðskiptablaðið í fyrra.

Í tilkynningu segir að flíkurnar séu allar úr Merino-ulli og henti því vel fyrir börn með viðkvæma húð. Ullin er fengin úr framleiðsluferli Álafoss/Ístex og er handunnin af íslenskum konum sem merktar eru fyrir hverri flík.