Í dag fór fram uppgjör á greiðslu kaupverðs á öllu hlutafé Lyfju hf. til seljanda og er félagið þar með orðinn hluti af samstæðu Festi samkvæmt Kauphallartilkynningu frá félaginu.
Samningur um kaup Festi á öllu hlutafé Lyfju var undirritaður fyrir ári síðan en Festi gerði sátt við Samkeppniseftirlitið vegna kaupanna um miðjan júní á þessu ári og var því hægt að klára kaupin.
Viðmiðunardagur uppgjörs vegna kaupanna er 1. júlí 2024 og mun Lyfja því koma inn í samstæðuuppgjör Festi frá og með þeim degi.
Kaupverð hlutafjár nam kr. 7.116 milljónum króna, sem byggir á bráðabirgðauppgjöri félagsins, en það skiptist annars vegar í greiðslu reiðufjár að fjárhæð 5 milljarða króna og hins vegar í afhendingu á 10 milljón hlutum í Festi að markaðsvirði 2 milljarðar króna, miðað við dagslokagengið 204 krónur á Nasdaq Iceland þann 10. júlí 2024.
Samkvæmt tilkynningu frá Festi gæti endanlegt kaupverð breyst lítillega þegar uppgjör Lyfju á fyrstu sex mánuðum ársins 2024 liggur fyrir, sem stefnt er að fyrir lok júlí.
Festi tók nýtt lán vegna kaupanna í dag sem eykur skuldsetningu samstæðunnar um fjóra milljarða en fyrirtækið mun greina nánar frá fjármögnun viðskiptanna í árshlutauppgjöri í lok mánaðar.
Samhliða uppgjörinu í dag hefur Hildur Þórisdóttir, starfandi forstjóri og framkvæmdastjóri mannauðssviðs Lyfju, tekið sæti í framkvæmdastjórn Festi.
„Þetta er stór stund og mikilvæg tímamót í vegferð Festi. Undanfari sameiningarinnar hefur tekið tíma en verið lærdómsríkt ferli sem leggur traustan grunn að samstarfinu innan samstæðunnar. Fram undan eru gríðarlega spennandi tímar og fjöldi tækifæra til samvinnu, samlegðar, aukinnar hagkvæmni og vaxtar þvert á félögin, sem eru ein sterkustu vörumerki landsins, hvert á sínum markaði. Hjá Lyfju starfar þrautþjálfað og vel menntað starfsfólk sem hefur byggt upp eina öflugustu lyfjaverslanakeðju landsins. Með sameinuðum, reynslumiklum og öflugum hópi starfsfólks, munum við tryggja almenningi og fyrirtækjum landsins breitt en hnitmiðað vöruúrval nauðsynjavara á sem besta verði. App- og netsala ásamt vel staðsettum þjónustustöðvum og verslunum okkar um land allt munu gegna hér lykilhlutverki.Samhliða verður lögð áhersla á að stuðla að bættri lýðheilsu í landinu með vönduðu vöruframboði, fræðslu, ráðgjöf og annarri heilbrigðisþjónustu eftir því sem tækifæri gefast. Allt atriði sem verða sífellt mikilvægari með fjölgun landsmanna og hækkandi lífaldri,“ segir Ásta S. Fjeldsted forstjóri Festi.
„Lyfja hefur verið á umfangsmikilli vegferð með það markmið að lengja líf og auka lífsgæði Íslendinga. Þetta gerum við í gegnum nýsköpun, með fræðslu og fyrirbyggjandi lausnum ásamt því að veita faglega lyfjafræðilega ráðgjöf um allt land. Við hjá Lyfju horfum björtum augum fram á veginn og hlökkum til að efla enn frekar þjónustu við okkar viðskiptavini með öflugu og framsýnu baklandi,“ segir Hildur Þórisdóttir, starfandi forstjóri og framkvæmdastjóri mannauðssviðs Lyfju.