Í dag fór fram upp­gjör á greiðslu kaup­verðs á öllu hluta­fé Lyfju hf. til seljanda og er fé­lagið þar með orðinn hluti af sam­stæðu Festi sam­kvæmt Kaup­hallar­til­kynningu frá fé­laginu.

Samningur um kaup Festi á öllu hluta­fé Lyfju var undir­ritaður fyrir ári síðan en Festi gerði sátt við Sam­keppnis­eftir­litið vegna kaupanna um miðjan júní á þessu ári og var því hægt að klára kaupin.

Við­miðunar­dagur upp­gjörs vegna kaupanna er 1. júlí 2024 og mun Lyfja því koma inn í sam­stæðu­upp­gjör Festi frá og með þeim degi.

Kaup­verð hluta­fjár nam kr. 7.116 milljónum króna, sem byggir á bráða­birgða­upp­gjöri fé­lagsins, en það skiptist annars vegar í greiðslu reiðu­fjár að fjár­hæð 5 milljarða króna og hins vegar í af­hendingu á 10 milljón hlutum í Festi að markaðs­virði 2 milljarðar króna, miðað við dagsloka­gengið 204 krónur á Nas­daq Iceland þann 10. júlí 2024.

Sam­kvæmt til­kynningu frá Festi gæti endan­legt kaup­verð breyst lítil­lega þegar upp­gjör Lyfju á fyrstu sex mánuðum ársins 2024 liggur fyrir, sem stefnt er að fyrir lok júlí.

Festi tók nýtt lán vegna kaupanna í dag sem eykur skuld­setningu sam­stæðunnar um fjóra milljarða en fyrir­tækið mun greina nánar frá fjár­mögnun við­skiptanna í árs­hluta­upp­gjöri í lok mánaðar.

Sam­hliða upp­gjörinu í dag hefur Hildur Þóris­dóttir, starfandi for­stjóri og fram­kvæmda­stjóri mann­auðs­sviðs Lyfju, tekið sæti í fram­kvæmda­stjórn Festi.

„Þetta er stór stund og mikil­væg tíma­mót í veg­ferð Festi. Undan­fari sam­einingarinnar hefur tekið tíma en verið lær­dóms­ríkt ferli sem leggur traustan grunn að sam­starfinu innan sam­stæðunnar. Fram undan eru gríðar­lega spennandi tímar og fjöldi tæki­færa til sam­vinnu, sam­legðar, aukinnar hag­kvæmni og vaxtar þvert á fé­lögin, sem eru ein sterkustu vöru­merki landsins, hvert á sínum markaði. Hjá Lyfju starfar þraut­þjálfað og vel menntað starfs­fólk sem hefur byggt upp eina öflugustu lyfja­verslana­keðju landsins. Með sam­einuðum, reynslu­miklum og öflugum hópi starfs­fólks, munum við tryggja al­menningi og fyrir­tækjum landsins breitt en hnit­miðað vöru­úr­val nauð­synja­vara á sem besta verði. App- og net­sala á­samt vel stað­settum þjónustu­stöðvum og verslunum okkar um land allt munu gegna hér lykil­hlut­verki.Sam­hliða verður lögð á­hersla á að stuðla að bættri lýð­heilsu í landinu með vönduðu vöru­fram­boði, fræðslu, ráð­gjöf og annarri heil­brigðis­þjónustu eftir því sem tæki­færi gefast. Allt at­riði sem verða sí­fellt mikil­vægari með fjölgun lands­manna og hækkandi líf­aldri,“ segir Ásta S. Fjeld­sted for­stjóri Festi.

„Lyfja hefur verið á um­fangs­mikilli veg­ferð með það mark­mið að lengja líf og auka lífs­gæði Ís­lendinga. Þetta gerum við í gegnum ný­sköpun, með fræðslu og fyrir­byggjandi lausnum á­samt því að veita fag­lega lyfja­fræði­lega ráð­gjöf um allt land. Við hjá Lyfju horfum björtum augum fram á veginn og hlökkum til að efla enn frekar þjónustu við okkar við­skipta­vini með öflugu og fram­sýnu bak­landi,“ segir Hildur Þóris­dóttir, starfandi for­stjóri og fram­kvæmda­stjóri mann­auðs­sviðs Lyfju.