Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir „ómögulegt“ að hægt verði að ganga endanlega frá samkomulagi um tollasamning milli ESB og Bandaríkjanna fyrir 9. júlí, sem er sá frestur sem Donald Trump gaf sambandinu til að semja um að komast hjá 50% tollum.

Í umfjöllun Financial Times kemur fram að ESB og Bandaríkin séu að nálgast samkomulagi um helstu skilmála samnings eftir viðræður í tæplega 3 mánuði.

Von der Leyen sagði á blaðamannafundi að stefnt væri að samkomulagi um helstu atriði tollasamnings. Hún bætti við að ómögulegt væri að ná saman um öll atriði svo umfangsmikils samnings á 90 dögum.

„Þetta er risaverkefni því við erum með mestu milliríkjaviðskipti á heimsvísu, þ.e. á milli ESB og Bandaríkjanna, eða um 1,5 þúsund milljarðar evra á ári.“

Hún sagði Bretland einnig hafa náð samkomulagi um helstu atriði viðskiptasamnings við Bandaríkjanna. Að sögn von der Leyen hafa aðeins tvö lönd náð slíku samkomulagi við Bandaríkin. Tilkynnt var í gær um samkomulag milli Bandaríkjanna og Víetnam.

Víetnam sætti sig við að 20% tolla á vörur sem fluttar eru til Bandaríkjanna og Bretland 10% tolla.

Embættismenn í Brussel hafa tjáð FT að ESB muni sennilega sætta sig við 10% tolla á útflutning til Bandaríkjanna. ESB væri þó að sækja eftir að ná niður sértækum tollum á vörur á borð við stál (50% tollur) og bifreiðar og varahluti í bíla (25% tollur).