Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra segir alveg skýrt að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar verði fjármagnaðar að fullu í sinni ráðherratíð og gerir ekki ráð fyrir að koma þurfi til frestunar útgreiðslu eins og heimild er fyrir.

1,5 milljarða króna heimild þessa árs hefur þegar verið fullnýtt, og sú 1,7 milljarða heimild sem lögð er til í fjárlagafrumvarpi næsta árs dugar aðeins fyrir litlum hluta þeirra fáu verkefna sem þegar eru áformuð og munu sín á milli eiga rétt á ríflega 4 milljarða króna greiðslum.

Lilja bendir á að síðustu ár hafi iðulega þurft að auka fjárveitingar til málaflokksins í fjáraukalögum af þessum ástæðum og er ekki í nokkrum vafa um að svo verði áfram.

„Þetta er skuldbinding á ríkissjóð samkvæmt lögum. Þessar endurgreiðslur hafa alltaf verið vanáætlaðar en svo bætt í með fjáraukalögum, og þannig verður það líka núna. Það er það sem var gert í tíð Þórdísar Kolbrúnar, og það er líka gert í tíð Lilju Alfreðsdóttur,“ segir hún ákveðin.

Hlutfallið verði ekki hækkað meira

Lilja segir greiðslurnar afar mikilvægar fyrir íslenskan efnahag til bæði skemmri og lengri tíma, en öllu megi þó ofgera, og greiðslurnar verði því ekki hækkaðar umfram það 35% hlutfall sem samþykkt var í vor að endurgreiða af umfangsmiklum verkefnum. Sífellt harðari samkeppni um stór verkefni sem lönd og svæði keppist um með sífellt rausnarlegri endurgreiðslum geti hæglega endað illa.

„Sem hagfræðingur er ég alveg sammála því, enda hef ég komið því skýrt á framfæri að það verði ekki lengra gengið en þessi 35%. Ríkissjóður verður alltaf að vera í plús eftir svona verkefni, og þá er ég að tala um beinu áhrifin. Um leið og þetta hættir að ganga upp efnahagslega og við sjáum meira fara út úr kassanum en inn í hann, þá stöldrum við við, það er alveg á hreinu í mínum huga.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun sem birtist í Viðskiptablaðinu í morgun.