Með lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðahúsnæði niður í 35% nú í sumar verður hlutfallið það lægsta síðan virðisaukaskattur var tekinn upp árið 1990.

Fyrstu 6 árin fékkst skatturinn meira að segja að fullu endurgreiddur rétt eins og í heimsfaraldrinum þar til síðasta haust, en árið 1996 var hlutfallið lækkað í 60%, og þar hefur það verið þegar ekki hefur þótt tilefni til að hafa það hærra. Fyrirhuguð lækkun þess niður í 35% nú í sumar markar því tímamót sem fyrsta skipti í aldarþriðjung sem það fer svo lágt.

Strax í mars 2009 í kjölfar hrunsins var tekin upp full endurgreiðsla auk þess sem heimildin var rýmkuð nokkuð, en með því freistuðu stjórnvöld þess að örva eftirspurn eftir iðnaðarmönnum, sem þá hafði gjörsamlega þurrkast upp.

Nýju reglurnar áttu að gilda út næsta ár, en úrræðið reyndist vinsælt og stemning fyrir afnámi þess lítil. Heimildin var framlengd alls fjórum sinnum, um ár í senn, og rann loks skeið sitt á enda í ársbyrjun 2015 eftir tæp 5 ár og við gerólíkar efnahagsaðstæður en þegar því var komið á.

Þegar upp var staðið hafði ríkissjóður þá endurgreitt alls 18,7 milljarða króna í tengslum við úrræðið, eða tæpa 30 milljarða króna á verðlagi dagsins í dag. Þar af voru ígildi 23,5 milljarða vegna viðhalds og byggingar húsnæðis sem samanstóðu af tæplega 89 þúsund einstökum beiðnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar sem kom út á fimmtudag, 19. apríl.