Alls nema beinar tekjur ríkisins af eignarhaldi á íslenskum bönkum í formi arðgreiðslna, söluandvirðis og hækkun hlutafjáreignar tæplega 1.000 milljörðum króna að núvirði frá árinu 2010. Þá hafa innlend fjármálafyrirtæki greitt um 700 milljarða króna í bæði almenna og sértæka skatta frá því ári. Þetta er meðal niðurstaðna samantektar sem kynnt verður á SFF deginum.

Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, minnir á að árið 2016 hafi Ásgeir Jónsson, nú seðlabankastjóri, og Hersir Sigurgeirsson prófessor skrifað skýrslu, þar sem dregið var saman að ríkissjóður hefði þá þegar endurheimt beinan kostnað sem lagðist á ríkissjóð vegna falls bankanna og endurreisn þeirra árið 2008. Endurheimtur umfram útlagðan kostnað voru þá áætlaðar 114 milljarðar á verðlagi dagsins í dag. Sé þessi fjárhæð uppreiknuð miðað við þróunina síðan þá nemur fjárhæðin um 280 milljörðum króna.

Heiðrún bendir á að til viðbótar við þessar fjárhæðir hafi ríkissjóður frá árinu 2010 innheimt sérstaka skatta af íslenskum fjármálafyrirtækjum, sem samtals nema um 259 milljörðum króna að núvirði. Við þetta bætast aðrar skattgreiðslur íslenskra  fjármálafyrirtækja á borð við hefðbundinn tekjuskatt, tryggingagjald, fasteignagjöld og eftirlitsgjöld til Fjármálaeftirlitsins.

Segir Heiðrún að samanlagt nemi skattgreiðslur íslenskra fjármálafyrirtækja frá árinu 2010 um 700 milljörðum króna að núvirði. Þannig nemi beinar tekjur ríkissjóðs af eignarhaldi á bönkunum og skattgreiðslum fjármálafyrirtækja um 1.700 milljörðum króna frá 2010 eða sem samsvari meira en öllum útgjöldum ríkissjóðs á árinu 2025.

Gengið mun lengra hér

Heiðrún segir að ein meginröksemdin fyrir hinni sértæku skattlagningu á íslenska banka á sínum tíma hafi verið að ráðast í tímabundna skattheimtu til að endurheimta þann kostnað sem féll á ríkið vegna fjármálahrunsins. Í þeim efnum hafi verið gengið mun lengra en í nágrannalöndum okkar.

„Í dag eru enn til staðar þrír sérstakir skattar á íslenska fjármálafyrirtæki sem eru reiknaðir ofan á laun, hagnað og skuldir fjármálafyrirtækja til viðbótar við eftirlitsgjald til Fjármálaeftirlitsins og gjald vegna rekstrar embættis umboðsmanns skuldara,“ segir Heiðrún.

„Samanlagt námu þessir skattar og gjöld um 20 milljörðum í fyrra og eru hærri en almennt þekkist í samanburðarlöndum okkar eða öðrum atvinnugreinum hér á landi.

Samkvæmt skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Intellecon vann fyrir SFF á síðasta ári greiddu íslenskir bankar langhæstu skattgreiðslur í Evrópu árið 2022, og voru þær þrefalt hærri en aðrir bankar í Evrópu voru að jafnaði að greiða sé miðað við skatta í hlutfalli við áhættuvegnar eignir.“

Í Hvítbókinni sem kom út árið 2018 kom fram að lækkun sértækra skatta á banka væri skýrasta tækifæri ríkisins til að lækka vaxtamun.
Í Hvítbókinni sem kom út árið 2018 kom fram að lækkun sértækra skatta á banka væri skýrasta tækifæri ríkisins til að lækka vaxtamun.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Skattarnir hluti af Íslandsálagi á vexti

Heiðrún segir að sértækir skattar séu hluti af svokölluðu Íslandsálagi sem stuðli að hærri vaxtamun hér en í samanburðarlöndunum eins og fram kom í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið árið 2018. Í Hvítbókinni kom fram að lækkun sértækra skatta á banka væri skýrasta tækifæri ríkisins til að lækka þennan vaxtamun.

„Það hlýtur að vera tilefni til að velta upp hvort tímabært sé að endurhugsa þessa skattaumgjörð,“ segir Heiðrún. Hún nefnir að einn skattanna, bankaskattur á skuldir, hafi verið lækkaður árið 2020. Á móti hafi hins vegar svokölluð óvaxtaberandi bindiskylda Seðlabankans verið hækkuð árin 2023 og 2024 sem hafi í reynd haft álíka áhrif í för með sér og ef lækkun bankaskattsins hefði verið dregin til baka enda hafi stofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðagreiðslubankinn litið á óvaxtaberandi bindiskyldu sem ígildi skattlagningu á fjármálastarfsemi.

Heiðrún segir að tölur að tölur bæði Seðlabankans og Evrópska bankaeftirlitsins um vaxtamun heimila og fyrirtækja, það er mismun inn- og útlánsvaxta, sýni að þessi mismunur hafi lækkað töluvert, andstætt þróuninni í flestum Evrópuríkjum, þar sem vaxtamunur hafi almennt hækkað verulega.

Áhætta að binda 400 milljarða í bönkum

Heiðrún bendir á að þrátt fyrir þessar háu fjárhæðir sem ríkið hafi fengið af eignarhaldi á bönkum sé ekki þar með sagt að eignarhaldið sé það heppilegasta fyrir hagsmuni ríkissjóðs til framtíðar.

„Út frá sjónarmiði áhættudreifingar telst ekki heppilegt að ríkið eigi jafn mikið undir í einni atvinnugrein með þeirri áhættu sem óhjákvæmilega fylgir bankarekstri. Þá ver ríkið ekki sömu krónunni tvívegis því þeir 400 milljarðar, sem bundnir eru í eigin fé bankanna, eru ekki nýttir til annarra verkefna á borð við uppbyggingu innviða, eflingu þjónustu hins opinbera eða niðurgreiðslu skulda.“

Öflugt fjármálakerfi er þjóðaröryggismál

„Það skiptir miklu fyrir efnahagslegt sjálfstæði Íslands að hér séu öflug innlend fjármálafyrirtæki, sem búa við samkeppnishæft starfsumhverfi til samræmis við það sem þekkist í löndunum í kringum okkur,“ segir Heiðrún. „Sérstaklega á óvissutímum í alþjóðamálum, þar sem fjármálafyrirtæki kippa oftar en ekki að sér höndum fyrst gagnvart minni mörkuðum líkt og þeim íslenska. Miklu skiptir að búa þannig um hnútana að fjármálageirinn geti stutt við þau fjárfestingaáform sem framundan eru á næstu árum, hvort sem horft er til innviða, húsnæðismarkaðar eða atvinnuveganna.“

Heiðrún segir að heilt yfir standi Ísland á góðum grunni þrátt fyrir mikla óvissu í alþjóðamálum nú um stundir, sem hætt sé á að komi illa við lítil opin hagkerfi eins og hið íslenska.

„Íslendingar hafa sýnt mikla aðlögunarhæfni í gegnum tíðina, nú síðast í heimsfaraldrinum,“ segir hún. „Þá eru vanskil og skuldahlutföll heimila og fyrirtækja lág í alþjóðlegum samanburði, við eigum vel fjármagnað fjármála- og lífeyriskerfi, og er afar mikilvægt að veikja það ekki.“

Viðtalið birtist í sérblaðinu SFF dagurinn - Breyttur heimur, sem fylgdi Viðskiptablaðinu.