Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði um 5% í 366 milljón króna viðskiptum í dag.

Dagslokagengi bankans var 127,5 krónur og hefur ekki verið hærra síðan í nóvember í fyrra.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá veitti Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) Íslandsbanka í gær heimild fyrir allt að 15 milljarða króna endurkaupum eigin hluta að markaðsvirði og til lækkunar hlutafjár.

Bankinn segist ætla að nýta heimildina til endurkaupa í þeim tilgangi að setja upp formlega endurkaupaáætlun eða til að gera hluthöfum almennt tilboð um kaup bankans á eigin bréfum, til dæmis með útboðsfyrirkomulagi.

Bankinn hyggst tilkynna um tímasetningu og framkvæmd endurkaupa samkvæmt framangreindri heimild þegar ákvörðun um þau hefur verið tekin.

Íslandsbanki hafði fyrir útistandandi heimild til endurkaupa á eigin hlutum að fjárhæð um 2 milljarða króna. Bankinn getur því samtals keypt eigin bréf fyrir 17 milljarða króna, eða um 7,4% af markaðsvirði hans miðað við dagslokagengi hans í dag.

Hlutabréfaverð bankans hefur nú hækkað um 17,5% síðastliðið ár.

Gengi Festi aldrei verið hærra

Hlutabréfaverð Festi hækkaði um 4% í 2,2 milljarða króna viðskiptum í dag en félagið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða í dag. Rekstur Festi á fjórða ársfjórðungi var umfram áætlanir félagsins er vörusala fjórðungsins nam tæplega 42 milljörðum króna, sem er 19% aukning frá sama tíma árið áður.

Á árinu 2024 var heildarhagnaður Festi rúmir 4 milljarðar sem er aukning um 16,9% frá árinu áður. Heildarafkoma félagsins nam 6,4 milljörðum, að stórum hluta vegna endurmats á fasteignum félagsins sem nam 2,4 milljörðum.

Félagið gerir ráð fyrir að EBITDA ársins 2025 verði á bilinu 14,4 til 14,8 milljarðar.

Dagslokagengi Festi var 310 krónur á hlut og hefur aldrei verið hærra en gengið hefur nú hækkað um 56,5% síðastliðið ár.

Gengi Sjóvár hækkaði um rúm 3% í tæplega 600 milljón króna veltu en félagið birtir árshlutauppgjör eftir lokun markaða í dag. Dagslokagengi Sjóvár var 54,5 krónur sem er um 13,5% hærra en í ársbyrjun.

Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 1,35% og lokaði í 2.998,59 stigum. Heildarvelta á markaði nam 9,8 milljörðum.