Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að efnahagsumhverfið reynst fyrirtækjum mikil áskorun. Nú sé rétti tíminn til að endurmeta opinber útgjöld.

Sigríður Margrét segir efnahagslegan stöðugleika forsendu þess að bæði fyrirtækin og heimilin í landinu geti gert framtíðaráætlanir sem haldi. Mikilvægt sé að muna að verðmætasköpun standi undir lífskjörum.

„Kannanir á meðal fyrirtækja sýna okkur að mun fleiri stjórnendur telja aðstæður í efnahagslífinu slæmar en góðar um þessar mundir og jafnframt eru þeir fleiri sem telja að hagnaður fyrirtækja muni dragast saman en aukast á þessu ári,“ segir Sigríður Margrét.

„Undirstöðuútflutningsgreinar landsins hafa sýnt af sér ótrúlega seiglu í gegnum stormasamt tímabil að undanförnu, bæði ferðaþjónusta og sjávarútvegur, en þjóðarbúið stendur á flesta mælikvarða styrkum stoðum í sögulegu og alþjóðlegu samhengi.“

Sigríður Margrét segir að þegar horft sé fram á veginn séu stjórnendur bjartsýnni enda séu fjölmörg tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf að auka verðmætasköpun í framtíðinni.

Færumst í rétta átt

Verðbólga mælist nú 5,4% en var 7,7% um síðustu áramót og fór yfir 10% í fyrra. Spurð hvernig henni finnst hafa gengið að ná verðbólgunni niður svarar Sigríður Margrét: „Við færumst í rétta átt og það er mikilvægt. Við erum núna að horfa á verðbólgu, án húsnæðisliðarins sem mælist 2,8% en sama verðbólga var fyrir ári síðan tæp 8%, þetta er mjög mikil breyting á einu ári. Á sama tíma sjáum við glöggt af mælingunni hversu miklu máli það skiptir að ná tökum á húsnæðismálum.“

Að sögn Sigríðar Margrétar hefur efnahagsumhverfið reynst fyrirtækjum mikil áskorun.

„Það að vera í 8-10% verðbólguumhverfi undanfarin ár og sitja uppi með 9% stýrivexti eru langt frá því kjöraðstæður til þess að reka fyrirtæki, slíkt efnahagsumhverfi kallar frekar á krísustjórnun,“ segir hún.

„Fyrir ári síðan töldu bæði okkar félagsmenn mikilvægast að leggja áherslu á að ná niður verðbólgu og vöxtum, við gerðum aftur könnun í sumar og enn eru verðbólga og vextir þau atriði í rekstrarumhverfi okkar félagsmanna sem þeir telja mikilvægast að breyta.“

Seðlabankinn lækkaði nýverið stýrivexti úr 9,25% í 9%.

„Það tekur tíma fyrir vaxtabreytingar að hafa áhrif í hagkerfinu og mikilvægt að ferlið sé ekki hafið of seint svo vaxtastigið þrengi ekki meira að hagkerfinu en nauðsyn krefur,“ segir Sigríður Margrét. „Við sjáum að hátt vaxtastig er til dæmis farið að hafa neikvæð áhrif á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, sem sár þörf er á. Á sama tíma er húsnæðisliðurinn enn að halda verðbólgunni uppi. Þessa þætti þarf að vega og meta inn í næstu vaxtaákvarðanir.“

Spurt hvort henni finnist hið opinbera, ríkið og sveitarfélögin í landinu, hafa gert nóg til að sporna gegn verðbólgunni svarar Sigríður Margrét: „Það er mikill samhljómur á meðal atvinnulífs, almennings og stjórnvalda um að efnahagslegur stöðugleiki sé settur í forgrunn, að minnsta kosti í orði.

Þegar við horfum á fjárlög næsta árs þá er jákvætt að það dragi úr útgjaldaaukningu hlutfallslega en það er miður að ríkið verði áfram rekið með halla, útgjaldaaukning sem framleiðsla í hagkerfinu getur ekki borið til lengdar er hvorki réttlætanleg né sjálfbær.“

Stöðugleikasamningurinn undirritaður.
Stöðugleikasamningurinn undirritaður.

„Tókumst harkalega á"

Nú er tæpt ár síðan kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru undirritaðir. Spurð hvort hún sé sátt við hvernig til tókst svarar Sigríður Margrét: „Kjarasamningar eru gerðir með þá trú að aukin verðmætasköpun í framtíðinni standi undir launahækkunum. Við getum því ekki sagt strax til hvort þetta hafi verið góðir samningar en þeir voru vissulega frábrugðnir þeim sem gerðir hafa verið undanfarin ár, þeir voru samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta okkar félagsmanna og meirihluti segist ánægður með þá í könnunum.

Við tókumst harkalega á um kostnaðarmat samninganna, launastefnuna, forsenduákvæðin og aðra liði í samningaviðræðunum og það þurfti mikið átak til þess að ljúka þeim en við erum ánægð með það hugrekki sem var sýnt, fagleg vinnubrögð og hversu samstíga við vorum um markmiðin.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Gagnrýni seðlabankastjóra

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í lok sumars að kjarasamningarnir hefðu greinilega haft meiri áhrif á verðlag og neyslu en gert hafi verið ráð fyrir. „Það er bæði vegna þess að mældar launahækkanir eru alveg töluverðar og líka það að aukning á kaupmætti í gegnum m.a. aðgerðir ríkisins hafa líka haft áhrif,“ sagði Ásgeir.

Sigríður Margrét segir meira jafnvægi í launastefnunni nú en áður.

„Þegar við horfum á launavísitöluna frá því að kjarasamningar voru gerðir en ekki ár aftur í tímann, þá eru laun að hækka í takt við kostnaðarmat samninganna,“ segir hún.

„Það er mun meira jafnvægi í þeirri stefnu sem var samið um núna en hefur verið undanfarna áratugi. Á Íslandi hefur verið umtalsvert launaskrið undanfarna áratugi, meðal annars vegna mikils ójafnvægis í launastefnunni, launahækkanir leita upp launastigann. Það er heilmikið átak að tileinka sér nýja hugsun og ný vinnubrögð þegar kemur að launahækkunum, launahækkanir sem samræmast verðstöðugleika eru á bilinu 3-4% en ekki á bilinu 7-8% líkt og þær hafa verið undanfarin tuttugu ár að meðaltali."

„Varðandi aðkomu ríkisins að kjarasamningum þá er okkar afstaða skýr, við teljum að kjarasamningar séu samningar á milli aðila vinnumarkaðarins. Samtök atvinnulífsins voru ekki þátttakendur í kröfum verkalýðshreyfingarinnar. Ef og þegar stjórnvöld ákveða að koma að kjarasamningum og gera samninga um slíkt, þá teljum við að sjálfsögðu að standa eigi við gerða samninga.“

Endurmeta þarf opinber útgjöld

Sigríður Margrét segist telja að núna sé rétti tímapunkturinn til að endurmeta opinber útgjöld og tryggja að fjárlagagerð sé árangursmiðuð.

„Eins og í rekstri fyrirtækja þá viljum við sjá samhengi á milli ráðstöfunar fjármuna og þess árangurs sem stefnt er að. Ástæðan fyrir því að þetta er okkur hjartans mál er sú að ef illa gengur að ná jafnvægi í rekstri ríkisins þá freistast stjórnmálamenn til þess að hækka skatta í stað þess að ráðast í naflaskoðun á eigin rekstri. Skattbyrði er há á Íslandi og frekari skattahækkanir munu koma niður á atvinnurekstri og atvinnuástandi og þar með á ríkissjóði til lengri tíma. Það er engin framtíðarsýn í slíkri nálgun.“

Fjallað er um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.