„Ég hlakka mjög mikið til að hefja störf hjá Samtökum iðnaðarins og starfa með öllu því öfluga fólki sem tengist samtökunum. Ég er virkilega spenntur.“

Þetta segir Sigurður Hannesson, nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Hann tekur við af Almari Guðmundssyni, sem sagði upp störfum sem framkvæmdastjóri 30. maí síðastliðinn.

Sigurður gengur til liðs við Samtök iðnaðarins eftir tíu ár á fjármálamarkaði, nú síðast sem framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku banka. Sigurður hóf störf á fjármálamarkaði í markaðsviðskiptum hjá Straumi fjárfestingarbanka árið 2007. Hann var ráðinn framkvæmdastjóri Júpíter rekstrarfélags, sem er í eigu Kviku, árið 2010 og tók síðan við starfi framkvæmdastjóra eignastýringar Kviku, þá MP Banka, í janúar 2013. Sigurður var varaformaður framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta og kynnti áætlun stjórnvalda um losun þeirra árið 2015, en einnig var hann formaður sérfræðingahóps um Leiðréttinguna. Hann var jafnframt efnahagsráðgjafi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þegar hann var forsætisráðherra. Sigurður er með doktorsgráðu í stærðfræði frá Oxford háskóla og hefur lokið prófi í verðbréfamiðlun.

Spurður hvað kæmi til að hann hafi valið sér annan starfsvettvang segist Sigurður hafa viljað breyta til. „Mér fannst tímabært að breyta til eftir að hafa verið svona lengi í sama geiranum. Það er allt búið að ganga vel og ég er að mörgu leyti búinn að ná mínum persónulegu markmiðum. En nú langar mig að gera eitthvað allt annað. Þessi hurð opnaðist og ég greip tækifærið.“

Gengur sáttur frá borði

Sigurður segist ganga sáttur frá borði hjá Kviku. „Ég geng mjög sáttur frá borði. Þegar ég tek við sem framkvæmdastjóri eignastýringar MP Banka í byrjun árs 2013 voru eignir í stýringu rúmlega 53 milljarðar króna. Í dag eru þær um 135 milljarðar. Ég tók þátt í sameiningu MP Banka og Straums fjárfestingarbanka og síðan hefur viðskiptavinum fjölgað talsvert. Þannig að ég get ekki annað en verið mjög sáttur og stoltur að hafa tekið þátt í uppbyggingu Kviku. Þarna vinnur frábær hópur fólks.“

Eftir tíu ár á fjármálamarkaði segir Sigurður endurreisn Íslands eftir hrun og vöxt síðustu ára standa upp úr. „Endurreisn Íslands stendur upp úr - það hvernig til tókst eftir hrunið og svo hagvöxturinn í kjölfarið. Ég sé ekki betur en að það muni áfram ganga vel á næstunni.“

Spennandi tímar framundan

Samtök iðnaðarins eru öflug samtök og segist Sigurður hlakka til að vinna með samtökunum til að efla iðnað og verðmætasköpun í landinu.

„Mér líst mjög vel á Samtök iðnaðarins. Það eru 1.400 fyrirtæki þarna undir sem skapa heilmikil verðmæti og störf í samfélaginu og leggja sín lóð á vogarskálar lífisgæða í landinu. Samtökin spanna mjög breitt svið, allt frá mannvirkjagerð og framleiðslu til hugvits. Það eru spennandi tímar framundan, sérstaklega í hugviti þar sem fjórða iðnbyltingin og tæknivæðingin munu koma við sögu næsta áratuginn. Þá er mikilvægt að íslenskur iðnaður sé samkeppnishæfur,“ segir Sigurður. „Þannig að ég hlakka virkilega til að vinna með stjórn, starfsmönnum og félagsmönnum samtakanna að því að auka og efla iðnað í landinu, tala máli íslensks iðnaðar, sinna hagsmunagæslu og kynna starfsemina fyrir almenningi.“

Sigurður tekur við sem framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins af Almari Guðmundssyni, sem hafði gegnt því starfi frá því í ágúst 2014. Áður gegndu m.a. eftirfarandi einstaklingar stöðu framkvæmdastjóra samtakanna: Kristrún Heimisdóttir, rannsóknarfélagi í lögum við Columbia-háskólann í New York (nóvember 2013 - ágúst 2014), Orri Hauksson, forstjóri Símans (júlí 2010 - nóvember 2013) og Jón Steinar Valdimarsson, Alþingismaður Viðreisnar (nóvember 2007 - júlí 2010).