Án vaxandi út­flutnings hefði danska hag­kerfið dregist saman um 4% síðustu þrjú ár, segir aðal­hag­fræðingur Danske Bank

Dan­mörk hefur fengið mikið lof fyrir öflugan hag­vöxt síðustu ár, jafn­vel um­fram þann sem náðst hefur í Bandaríkjunum eftir heims­far­aldurinn.

En ný og viða­mikil endur­skoðun danskra þjóðhags­reikninga hefur dregið veru­lega úr þeirri mynd.

Sam­kvæmt nýjustu gögnum jókst verg lands­fram­leiðsla Dan­merkur um 11,4% á árunum 2021 til 2024 en fyrri matið var 15,9%.

Dan­mörk situr því nú milli Bandaríkjanna og evru­svæðisins hvað vöxt varðar.

„Það er nú orðið ljóst að út­flutningur hefur einn og sér verið burðarás hag­vaxtar í Dan­mörku síðustu þrjú ár,“ skrifar Bjørn Tangaa Sillemann, aðal­hag­fræðingur Danske Bank, í greiningu sem birtist í Børsen.

Ef tekið er til­lit til inn­flutnings kemur í ljós að eftir­spurn innan­lands hafi ekki nægt til að halda uppi hag­vexti, heldur hefði hag­kerfið dregist saman um 4% án út­flutnings.

Endur­skoðunin sýnir einnig að byggingariðnaður og sjóflutningar höfðu minni áhrif á vöxt en áður var talið.

Þrátt fyrir að flutnings­gjöld hafi rokið upp í heims­far­aldrinum – og sjóflutningar náð allt að 10% af lands­fram­leiðslu árið 2022 – reyndist magnið af fluttum gámum minna en búist var við. Það dregur úr raun­vexti, jafn­vel þótt verð hafi hækkað.

Sillemann bendir einnig á að danskir neyt­endur hafi ekki aukið út­gjöld sín í takti við tekju­aukningu. Þvert á móti hafi meiri hluti ráðstöfunar­tekna farið í sparnað. Þetta sé ný hegðun sem geri hag­kerfið háðara er­lendum mörkuðum en áður.

Við þetta bætist að danskir fyrir­tækja­rek­endur hafa í auknum mæli ráð­stafað hagnaði til fjár­festinga er­lendis frekar en til frekari upp­byggingar innan­lands.

Þetta skýrir meðal annars að við­skipta­jöfnuður Dan­merkur fór árið 2024 í fyrsta sinn yfir 10% af vergri lands­fram­leiðslu.
Í greiningunni er bent á að dansk efna­hags­leg sam­keppnis­hæfni virðist viðhaldast, meðal annars vegna fast­gengis krónunnar við evru og þess að laun og verðlag þróist svipað og hjá helstu við­skiptalöndum.

Því séu ekki horfur á að miklir við­skipta­yfir­gangar komi niður á út­flutnings­greinum til skemmri tíma.

Þrátt fyrir hóf­legri vöxt en áður var talið telur Sillemann að áhættu­mynd í efna­hags­kerfinu hafi batnað – sér­stak­lega þar sem heimilin virðast hafa aukið neyslurými.

Hann varar þó við að draga of víðtækar ályktanir, þar sem enn ríki mikið ósamræmi milli mikillar fjölgunar starfa og þess vaxtar sem mælist í lands­fram­leiðslu.

„Við höfum lík­lega ekki séð síðustu endur­skoðun danska hag­kerfisins á þessum eftir­co­vid árum,“ segir hann að lokum.