Á mánudaginn fór fram munnlegur málflutningur í Hæstarétti Íslands um matsbeiðni Þorsteins Más Baldvinssonar í miskabótamáli hans gegn Seðlabanka Íslands.
Í febrúar í fyrra úrskurðaði Persónuvernd að varðveisla Seðlabankans á persónuupplýsingum um Þorstein hefði verið brot á lögum um persónuvernd.
Seðlabanki Íslands átti að eyða gögnum í kjölfar þess að dómstólar sögðu rannsókn og sekt bankans hafa verið byggða á rangri túlkun á refsiheimildum og að afgreiðsla og málsmeðferð bankans hefðu ekki verið í samræmi við lög.
Seðlabankinn gerði það þó ekki heldur afhenti héraðssaksóknara gögnin árið 2020.
„Það liggur ljóst fyrir að Seðlabankinn braut persónuverndarlög. Ég bauð þeim að ljúka þessu máli með smá upphæð sem þeir hafna eftir að það er búið að úrskurða um brotið. Þeir, bara eins og venjulega, telja sig hafna yfir það sem er nefnt lög og réttur líkt og fleiri ríkisstofnanir,“ segir Þorsteinn Már í samtali við Viðskiptablaðið.
Miskabótamál Þorsteins gegn bankanum hefur dregist á langinn en Seðlabanki Íslands ákvað nýverið að kæra úrskurð Landsréttar um að Þorsteinn megi dómkveðja matsmann. Sem fyrr segir fór málflutningur fram í Hæstarétti á mánudaginn.
„Þetta er mjög kostnaðarsamt og það er ekki bara lögmannskostnaður heldur eru þeir að halda dómskerfinu uppteknu sem er einnig mjög dýrt,“ segir Þorsteinn Már.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.