Heiðrún Lind Marteins­dóttir, fram­kvæmda­stjóri SFS, segir það vissu­lega fagnaðar­efni að ríkis­stjórnin segist ætla að rjúfa kyrr­stöðu og vinna að aukinni verðmæta­sköpun í at­vinnulífinu.

Hins vegar sé þetta al­menna orðalag í nýjum stjórnarsátt­mála til­efni til þess að hafa áhyggjur „þar sem engar aug­ljósar vörður eru festar á blað til þess að mark­miði verði náð.”

„Þá er það heldur ekki al­farið á forræði ríkisins að auka verðmæta­sköpun í at­vinnulífinu. At­vinnulífið sjálft, framsækið fólk á öllum sviðum, hlýtur að vera best til þess fallið að leiðbeina ríkinu um þá þætti sem kunna að vera til þess fallnir að skapa meiri verðmæti í dag en í gær. Með góðu sam­tali ríkis og einka­aðila eru sannan­lega mikil tækifæri til þess að gera Ís­land enn betra og þetta sam­tal verður vonandi gott á skipunar­tíma nýrrar ríkis­stjórnar,” skrifar Heiðrúná vef SFS.

Heiðrún bendir á að eitt af tölu­settum mark­miðum nýrrar ríkis­stjórnar sé að móta auðlinda­stefnu um sjálf­bæra nýtingu og rétt­lát auðlinda­gjöld en af þeim sökum telur hún rétt að fara ögn yfir sjávarút­veginn og byrja á sjálf­bærri nýtingu.

„Þannig háttar til að nýting fiski­stofna við Ís­land hefur byggst á sjálf­bærri nýtingu í æði langan tíma. Megin­stefið er vísinda­leg nálgun við veiðar, þar sem leyfi­legur há­marks­afli byggist á ráðum sér­fræðinga Haf­rannsókna­stofnunar um hvað óhætt sé að veiða mikið úr hverjum stofni. Alþjóð­legar stofnanir eru einnig hafðar með í ráðum. Við stjórn fisk­veiða hér á landi er stuðst við það sem heitir varúðarnálgun og náttúran er látin njóta vafans,“ skrifar Heiðrún.

Hún bendir meðal annars á að sala á ís­lenskum fiski er háð því að þessi stefna sé viðhöfð því kaup­endur er­lendis gera þá kröfu að nýting á stofnum sé sjálf­bær. Sér­stök fyrir­tæki sjá um að votta að þessi háttur sé hafður á.

„Þá er ekki síður mikilvægt að afla­marks­kerfið hefur lagt grunn að sterkum efna­hags­legum og sam­félags­legum þáttum sjálf­bærni. Vel rekin og arðsöm fyrir­tæki skila ábata langt út fyrir hinn hefðbundna sjávarút­veg og greiðslur til hins opin­bera eru miklar. Sjó­menn eru jafn­framt sú stétt sem hefur hæstar stað­greiðslu­skyldar launa­greiðslur allra stétta á landinu og launa­greiðslur í fisk­vinnslu eru hærri en meðal stað­greiðslu­skyldar launa­greiðslur í hag­kerfinu,“ segir Heiðrún.

Þá minnir hún á að það eru öflug sjávarút­vegs­fyrir­tæki í öllum lands­hlutum þar sem starfar fjöldi fólks með örugga og vel launaða vinnu allan ársins hring. Með skyn­sam­legri stefnu hefur byggð því verið treyst í landinu, að hennar sögn.

„Ný ríkis­stjórn þarf því í raun ekki að móta nýja auðlinda­stefnu um sjálf­bæra nýtingu þegar kemur að sjávarút­vegi. Ís­lenskur sjávarút­vegur er sjálf­bær og með afla­marks­kerfinu hefur al­mennt tekist vel við endur­reisn fiski­stofna frá því að þeir voru við það að hrynja og sumir hrundu. Fækkun báta, skipa og út­gerða hefur gerst á for­sendum markaðarins og er nú svo komið að ís­lenskur sjávarút­vegur leggur hlut­falls­lega mest til þjóðar­búsins meðal allra fisk­veiðiþjóða. Sjávarút­vegur á Ís­landi er ekki ríkis­styrktur, ólíkt því sem víða gerist. Sjávarút­vegurinn var, er, og mun verða ein af grunn­stoðum ís­lensks efna­hags­lífs. Hann mun raunar verða enn sterkari ef honum verður leyft að þróast á eðli­legum við­skipta­legum for­sendum,” skrifar Heiðrún.

Hægt er að lesa grein Heiðrúnar í heild hér.