Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir það vissulega fagnaðarefni að ríkisstjórnin segist ætla að rjúfa kyrrstöðu og vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu.
Hins vegar sé þetta almenna orðalag í nýjum stjórnarsáttmála tilefni til þess að hafa áhyggjur „þar sem engar augljósar vörður eru festar á blað til þess að markmiði verði náð.”
„Þá er það heldur ekki alfarið á forræði ríkisins að auka verðmætasköpun í atvinnulífinu. Atvinnulífið sjálft, framsækið fólk á öllum sviðum, hlýtur að vera best til þess fallið að leiðbeina ríkinu um þá þætti sem kunna að vera til þess fallnir að skapa meiri verðmæti í dag en í gær. Með góðu samtali ríkis og einkaaðila eru sannanlega mikil tækifæri til þess að gera Ísland enn betra og þetta samtal verður vonandi gott á skipunartíma nýrrar ríkisstjórnar,” skrifar Heiðrúná vef SFS.
Heiðrún bendir á að eitt af tölusettum markmiðum nýrrar ríkisstjórnar sé að móta auðlindastefnu um sjálfbæra nýtingu og réttlát auðlindagjöld en af þeim sökum telur hún rétt að fara ögn yfir sjávarútveginn og byrja á sjálfbærri nýtingu.
„Þannig háttar til að nýting fiskistofna við Ísland hefur byggst á sjálfbærri nýtingu í æði langan tíma. Meginstefið er vísindaleg nálgun við veiðar, þar sem leyfilegur hámarksafli byggist á ráðum sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar um hvað óhætt sé að veiða mikið úr hverjum stofni. Alþjóðlegar stofnanir eru einnig hafðar með í ráðum. Við stjórn fiskveiða hér á landi er stuðst við það sem heitir varúðarnálgun og náttúran er látin njóta vafans,“ skrifar Heiðrún.
Hún bendir meðal annars á að sala á íslenskum fiski er háð því að þessi stefna sé viðhöfð því kaupendur erlendis gera þá kröfu að nýting á stofnum sé sjálfbær. Sérstök fyrirtæki sjá um að votta að þessi háttur sé hafður á.
„Þá er ekki síður mikilvægt að aflamarkskerfið hefur lagt grunn að sterkum efnahagslegum og samfélagslegum þáttum sjálfbærni. Vel rekin og arðsöm fyrirtæki skila ábata langt út fyrir hinn hefðbundna sjávarútveg og greiðslur til hins opinbera eru miklar. Sjómenn eru jafnframt sú stétt sem hefur hæstar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur allra stétta á landinu og launagreiðslur í fiskvinnslu eru hærri en meðal staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í hagkerfinu,“ segir Heiðrún.
Þá minnir hún á að það eru öflug sjávarútvegsfyrirtæki í öllum landshlutum þar sem starfar fjöldi fólks með örugga og vel launaða vinnu allan ársins hring. Með skynsamlegri stefnu hefur byggð því verið treyst í landinu, að hennar sögn.
„Ný ríkisstjórn þarf því í raun ekki að móta nýja auðlindastefnu um sjálfbæra nýtingu þegar kemur að sjávarútvegi. Íslenskur sjávarútvegur er sjálfbær og með aflamarkskerfinu hefur almennt tekist vel við endurreisn fiskistofna frá því að þeir voru við það að hrynja og sumir hrundu. Fækkun báta, skipa og útgerða hefur gerst á forsendum markaðarins og er nú svo komið að íslenskur sjávarútvegur leggur hlutfallslega mest til þjóðarbúsins meðal allra fiskveiðiþjóða. Sjávarútvegur á Íslandi er ekki ríkisstyrktur, ólíkt því sem víða gerist. Sjávarútvegurinn var, er, og mun verða ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs. Hann mun raunar verða enn sterkari ef honum verður leyft að þróast á eðlilegum viðskiptalegum forsendum,” skrifar Heiðrún.
Hægt er að lesa grein Heiðrúnar í heild hér.