Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), segir ­leitt að sjá niðurstöður septembertalningar HMS um að íbúðir í byggingu eru um 17% færri en á sama í fyrra. Hann segir samtökin ekki sjá fram á neinn viðsnúning í þeim efnum á næstunni.

Á fundi HMS í hádeginu benti Sigurður á að landsmönnum hefði fjölgað hratt að undanförnu sem setji enn frekari þrýsting á þegar uppsafnaða íbúða- og innviðaþörf. Það hafi stuðlað að miklum hækkunum á húsnæðisverði.

Þá gefi áframhaldandi hækkanir á íbúðamarkaði, á sama tíma og stýrivextir Seðlabankans hafa verið háir, til kynna hvað undirliggjandi þörf á húsnæði er mikil.

„Þannig það er til mikils að vinna að ná tökum á þessu. Það er í sjálfu sér engin lausn til nema það þarf fleiri íbúðir. Það er rótin að þessum vanda. Vandinn er auðvitað sá að það gerist auðvitað ekki á einum degi heldur tekur það langan tíma að byggja.“

Yfir 60% arkitekta sjá fram á samdrátt

Sigurður dró upp einfalda mynd af ferli uppbyggingar húsnæðis. Þrátt fyrir að framkvæmdatíminn sé gjarnan um 2 ár þá getur aðdragandi uppbyggingar oft verið talsvert lengri. Skipulagsferlið getur tekið allt frá einu ári og upp í 20 á þróunarreitum. Þá getur undirbúningur lóðar, hönnun og annað slíkt tekið allt ð 5 ár.

„Það er svolítið áhugavert ef maður fylgist með umræðunni, það fer mjög mikill tími í að ræða hvort hægt sé að stytta byggingartímann, ná honum kannski niður í eitt og hálft ár. En við gleymum því oft hvað það er langur aðdragandi, hvað það fer mikill tími í að komast á þann stað að hefja framkvæmdir.“

Mynd tekin úr kynningu Sigurðar.

Í ljósi þessa fór Sigurður yfir niðurstöður könnunar sem gerð var meðal arkitekta- og verkfræðistofa innan SI í september. Yfir 60% svarenda sögðu að verkefnum hefði fækkað á undanförnum tólf mánuðum og ekki nema 9% sem segja að verkefnum hafi fjölgað.

„Talningin hjá HMS sem gefur okkur svo góða innsýn í næstu 2-3 árin kannski, hún segir ákveðna sögu, en þetta gefur okkur ákveðna vísbendingar um stöðuna lengra fram í tímann. Þannig að því miður þá eru ekki vísbendingar í dag um að það verði einhver viðsnúningur þarna hjá okkur þegar kemur að íbúðauppbyggingunni.“

Niðurstöður könnunar sem gerð var meðal arkitekta- og verkfræðistofa innan SI í september.

Ýmsir þættir að halda aftur af framboðshliðinni

Sigurður sagði að heildarumfang mannvirkjaiðnaðarins er um eða yfir 600 milljarðar króna á ári. Til einföldunar skipti hann mannvirkjaiðnaðinum niður í þrjá markaði; mannvirki atvinnuveganna, íbúðarhúsnæði og opinberir innviðir.

„Ef við einföldum myndina aðeins þá má segja að það sem mest hefur áhrif verðbólguna hérna er íbúðarhúsnæðið og verðþróun þar. Við ættum þá að vilja sjá meiri umsvif á þeim markaði innan mannvirkjagerðar til þess að mæta þessum þörfum samfélagsins.“

‎Ýmsir þættir haldi aftur af uppbyggingunni. Þar á meðal er hár fjármagnskostnaður, kostnaðarverðshækkanir, launahækkanir, hækkun aðfangaverðs, hækkun virðisaukaskatts á vinnu manna á verkstað - aðgerð sem ríkisstjórnin réðst í á síðasta ári , óstöðugt starfsumhverfi og óljósar gjaldtökuheimildir sveitarfélaga.