Á sunnudag var tilkynnt að stjórn Kviku hefði samþykkt 28,6 milljarða króna tilboð Landsbankans í TM Tryggingar. Þrátt fyrir yfirlýstan vilja Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur fjármálaráðherra til að vinda ofan af kaupunum er af samtali Viðskiptablaðsins við heimildarmenn sem sitja beggja vegna borðsins ekki að sjá að nokkur leið sé til þess.

Viðskiptablaðið ráðfærði sig við lögmenn sem hafa reynslu á þessu sviði og það er skilningur þeirra að heimildir til að komast undan samningi á grundvelli fyrirvara sem eiga ekki beint við séu mjög takmarkaðar. Dómaframkvæmd á Íslandi hafi verið með þeim hætti að heimildir aðila til að komast undan skuldbindandi samningnum séu túlkaðar þröngt.

Að óbreyttu munu kaupin því ganga í gegn þrátt fyrir að ríkið, eigandi 98,2% hlutar í bankanum, sé mótfallið því. Viðskiptin eru gerð með hefðbundnum fyrirvörum, s.s. samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins. Eins og staðan er í dag virðist það eina sem getur komið í veg fyrir viðskiptin að eftirlitsaðilarnir leggist gegn þeim.

Heimildarmenn sem til þekkja segja kaupin marka nokkra áherslubreytingu frá bankaráðum fyrri tíma. Afar ólíklegt hefði þótt fyrir aðeins nokkrum árum síðan að gefið hefði verið grænt ljós á sambærileg viðskipti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér.