Gunnar Baldvinsson framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins segir það til marks um ófaglega umræðu að halda því fram að lífeyrissjóðirnir hafi tapað hátt í 900 milljörðum árið 2022. Þetta kemur fram í aðsendri grein Gunnars í Viðskiptablaðinu í þessari viku.

Greinin kallast á við umræðu sem hefur átt sér stað í fjölmiðlum að undanförnu. Umræðan hófst eftir að Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR fullyrti að tap lífeyrissjóðanna hafi verið 845 milljarðar árið 2022. Gylfi Magnússon prófessor við Háskóla Íslands blandaði sér svo í umræðuna en steig með varfærnari hætti til jarðar en Ragnar og sagði tapið vera 815. Gylfi sagði einsýnt að þetta muni kalla á lækkun lífeyrisgreiðslna og réttinda.

Fjármagnstekjur frá einu ári til annars lýsa ekki stöðu sjóðanna

Gunnar bendir á að vissulega hafi hreinar fjármagnstekjur lífeyrissjóðanna verið neikvæðar um 218 milljarða árið 2022 og endurspegli það þróun á eignamörkuðum á tímabilinu. En þetta segi vegar afar takmarkaða sögu um stöðu lífeyrissjóðanna. Gunnar bendir á að endanleg ávöxtun eigna lífeyrissjóða ræðst af mismun á kaup- og söluverði – lífeyrissjóðir innleysi ekki tap eða hagnað fyrr en þeir selja eign eða skuldabréf er greitt upp en á eignartíma eru fjármagnstekjur ýmist jákvæðar eða neikvæðar.

Fjármagnstekjur jákvæðar í sögulegu samhengi

Þrátt fyrir að sveiflur í fjármagnstekjum stýri ekki endanlega hvort tap eða hagnaður hafi verið af fjárfestingu sjóðanna hafa þær eigi síður verið jákvæðar. Gunnar skrifar:

Síðustu tíu ár hafa hreinar fjármagnstekjur lífeyrissjóðanna verið jákvæðar öll ár að undanskildu árinu 2022 (sjá mynd). Samanlagt voru fjármagnstekjur lífeyrissjóðanna jákvæðar um 3.300 milljarða árin 2013-2022 á verðlagi hvers árs en um tæpa 4.000 milljarða á verðlagi í lok tímabilsins. Neikvæðar fjármagnstekjur árið 2022 vigta ansi lítið í þessum samanburði. Raunhækkun eigna (hækkun umfram verðlag) á áratugnum var 60% (4,8% á ári) þrátt fyrir 11,6% neikvæða raunávöxtun árið 2022.“

Að lokum segir Gunnar að það dragi ekki upp rétta mynd að tala um neikvæðar fjármagnstekjur lífeyrissjóða í eitt ár sem tap og „hvað þá að bæta við reiknaðri verðbólgu og slá því upp sem stórfrétt og ýja að gáleysi við fjárfestingar“ og kallar eftir faglegri umfjöllun um afkomu lífeyrissjóðanna.

© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)

Gylfi Magnússon virðist vera sammála Gunnari um þörfina á faglegri umræðu. Í grein sem Gylfi skrifaði um sögulega ávöxtun lífeyrissjóðanna sem kom út í Þjóðarspegli Félagsvísindastofnunar árið 2013 segir hann:

Ýmislegt hefur verið fullyrt um tjón sjóðanna í hruninu sem ekki stenst vel nánari skoðun. Til að reikna út tjón vegna mistaka í eignastýringu þarf ef vel á að vera að finna raunhæfan betri kost og bera áætlaðan árangur af þeirri leið saman við árangur af þeirri leið sem farin var í raun.“