Fjórar af sjö ávöxtunarleiðum Almenna lífeyrissjóðsins skiluðu neikvæðri nafnávöxtun í fyrra. Einungis innlánasafnið, sem fjárfestir eingöngu í innlánum, skilaði jákvæðri raunávöxtun en þó aðeins um 0,03%. Þetta kemur fram í nýbirtu yfirliti sjóðsins yfir ávöxtun síðasta árs en hann er sá fyrsti til að birta slíkar niðurstöður.

Ávöxtun lífeyrissjóða hefur verið hagfelld undanfarin ár en eftir vaxtahækkanir og almennar lækkanir á verðbréfamörkuðum má gera ráð fyrir að ávöxtun í fyrra hafi verið nokkuð lakari eins og tölur Almenna bera með sér.

Hjá fjórum blönduðum ávöxtunarleiðum Almenna sem fjárfesta í skuldabréfum, hlutabréfum og innlánum, var nafnávöxtun á bilinu -6,5% til 0,7%. Raunávöxtun þeirra var á á bilinu -14,5% til -7,9% en minnsta ávöxtunin var hjá Ævisafni I sem er hugsuð fyrir yngsta hóp sjóðfélaga og miðar við að fjárfesta um 70% af eignum í hlutabréfum.

„Lækkun var á öllum helstu mörkuðum sem Almenni fjárfestir á og endurspeglast það í ávöxtun safna sjóðsins á árinu. Óvissa vegna stríðsins í Úkraínu, þróunar orkumála í Evrópu, áhyggjur af hárri verðbólgu og hækkun stýrivaxta leiddu til hækkunar á ávöxtunarkröfu á skuldabréfamörkuðum og lækkunar á eignamörkuðum, bæði á hlutabréfum og skuldabréfum,“ segir í fréttinni á vef Almenna.

Ávöxtun ávöxtunarleiða Almenna lífeyrissjóðsins.
Ávöxtun ávöxtunarleiða Almenna lífeyrissjóðsins.

Neikvæð þróun á mörkuðum

Sjóðurinn bendir á að heimsvísitala erlendra hlutabréfa MSCI lækkaði um 18,1% í Bandaríkjadölum sem jafngildir 10,8% lækkun í íslenskum krónum þar sem krónan veiktist í fyrra. Til samanburðar hafi vísitalan hækkað að jafnaði um 12,9% í íslenskum krónum síðastliðin fimm ár sem samsvari 7,8% árlegri ávöxtun.

Þá hafi heildarvísitala aðallista íslensku kauphallarinnar lækkað um 12% yfir árið 2022. „Þrátt fyrir þessa lækkun hefur heildarvísitala aðallista hækkað um 14,4% að jafnaði undanfarin fimm ár sem samsvarar 9,2% árlegri raunávöxtun.“

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti úr 2% í 6% í fyrra. „Þessar hækkanir höfðu áhrif á innlendan skuldabréfamarkað og var snarpur viðsnúningur á seinni hluta ársins,“ segir Almenni.

Ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa hækkaði verulega með tilheyrandi gengistapi og lækkaði vísitala Nasdaq Iceland fyrir 10 ára verðtryggð skuldabréf um 1,6%. Sambærileg vísitala fyrir 10 ára óverðtryggð skuldabréf lækkaði um 11,6%, sem skýrist af mikilli hækkun á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra skuldabréfa á árinu, m.a. vegna verðbólgu.

Ávöxtunarleiðin Ríkissafn, sem fjárfestir einkum í meðallöngum ríkisskuldabréfum, skilaði 3,8% neikvæðri nafnávöxtun og 12,0% neikvæðri raunávöxtun í fyrra. Auk framangreindrar þróunar á skuldabréfamörkuðum rekur Almenni neikvæða ávöxtun Ríkissafnsins til skuldabréfa ÍL-sjóðs, sem eru með ríkisábyrgð, en þau vega hátt í 40% af eignum safnsins.

Í kjölfar kynningar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í október hvar hann viðraði hugmyndir um möguleg slit sjóðsins með lagasetningu lækkaði verð skuldabréfa ÍL-sjóðs um allt að 16%.

Árleg raunávöxtun síðustu fimm ára 2%-5%

Almenni tekur fram að þrátt fyrir neikvæða raunávöxtun á síðasta ári sé langtímaávöxtun blandaðra verðbréfasafna hagstæð. Þau hafi öll skilað jákvæðri raunávöxtun síðastliðin 5 og 10 ár, eða á bilinu 2%-5%. Mesta raunávöxtunin yfir lengra tímabil sé enn hjá Ævisafni I þrátt fyrir að þar hafi tapið verið mest í fyrra.

„Enn ríkir óvissa á helstu eignamörkuðum heims vegna stríðsátakanna í Úkraínu sem og verðbólgu sem gæti skilað sér í enn frekari stýrivaxtahækkunum erlendis og hækkun á ávöxtunarkröfu skuldabréfa. Margt bendir því til þess að markaðir geti áfram verið sveiflukenndir sem hefði þá áhrif á ávöxtun á næstu misserum.

Horfur til lengri tíma eru hins vegar ágætar eftir vaxtahækkanir og lækkanir á eignamörkuðum. Fjárfestum býðst nú að kaupa skuldabréf á mun hærri ávöxtunarkröfu en stóð til boða í lágvaxtaumhverfi síðustu ára og verðkennitölur hlutabréfa eru sömuleiðis hagstæðari í sögulegu samhengi.“