Brynjólfur Bjarnason, fráfarandi stjórnarformaður Arion banka, lýsti í kveðjuávarpi sínu á aðalfundi bankans í dag yfir áhyggjum sínum af sístækkandi og íþyngjandi hlutverk eftirlitsiðnaðarins.

„Á mínum nær hálfrar aldar starfsferli í fjölbreyttum atvinnurekstri á ólíkum sviðum íslensks atvinnulífs; bókaútgáfu, sjávarútvegi, fjarskiptum og bankastarfsemi, hef ég því miður þurft að eyða mörgum stundum í skylmingum við eftirlitsstofnanir sem nálgast sín verkefni á sviði atvinnulífsins að mínu viti oft af of mikilli neikvæðni,“ sagði Brynjólfur.

„Alþekkt eru fjölmörg slík mál bæði í sjávarútvegi og fjarskiptarekstri, en sannast sagna hef ég hvergi annars staðar en í bankarekstri kynnst starfsemi þar sem jafn margar starfsstundir og heilu deildirnar þurfa að sinna verkefnum gagngert til að koma til móts við kröfur eftirlitsiðnaðarins. Þetta starfsfólk er á sama tíma, eðlilega, ekki að sinna því grundvallarverkefni hvers atvinnurekstrar að þjóna þörfum viðskiptavina.“

Eins og stofnanir séu að reyna að sanna tilvist sína

Brynjólfur tekur undir þau sjónarmið að alls staðar í atvinnulífinu þurfi að vera skýrt regluverk og eftirfylgni. Í öllum grundvallaratriðum snúist atvinnurekstur þó um að koma til móts við þarfir viðskiptavina með vörum eða þjónustu og ná að veita þá þjónustu á sem skilvirkastan og kostnaðarminnstan máta. Orka starfsfólks eigi að miða að þessu.

„Staðan á síðustu árum er þó orðin þannig að stór hluti tíma starfsfólks fer í að sinna æ meira íþyngjandi eftirlitsreglum og skýrslugerð til sívaxandi eftirlitsstofnana, þar sem engin takmörk virðast vera á útþennslu. Maður fær jafnvel á tilfinninguna að starfsfólk þessara stofnanna þurfi að sanna tilvist sína með sífellt meiri kröfum um skýrslur og eftirlit.“

Bónuskerfi eftirlitsaðila elur á sundrungu

Brynjólfur bætti við að svo virðast sömu reglur eigi ekki alltaf við um þær stofnanir sem hafa eftirlit með því að fjármálafyrirtæki fara að reglum. Hann nefnir í því samhengi nýlega umræðu um bónusgreiðslur til starfsfólks eftirlitsaðila.

„En um fjármálafyrirtæki gilda mjög skýrar reglur þar sem starfsfólki eftirlitseininga þeirra er óheimilt að þiggja bónusgreiðslur. Slíkur tvískinnungur, og því miður oft á tíðum neikvæð nálgun á atvinnustarfsemi, elur á sundrungu og jafnvel óvild milli fyrirtækja og eftirlitsaðila, í stað þess að vinna saman að því að halda rekstri heilbrigðum og innan allra reglna.

Minna skal á að allar þessar opinberu stofnanir eru reknar á framlögum okkar með skattgreiðslum.“

Starfsmenn FME á hvern starfsmann í geiranum farið úr 128 í 25

Brynjólfur tekur starfsemi Fjármálaeftirlitsins sem dæmi um aukin umsvif eftirlitsstofnunar. Árið 2005 hafi verið um 4.500 manns starfandi í fjármálageiranum og starfsfólk FME taldi þá 35 einstaklinga. Það samsvari um 1 starfsmann á hverja 128 starfsmenn í greininni.

Hann áætlar að á síðastliðnu ári hafi starfað að jafnaði um 3.000 manns í fjármálakerfinu. Starfsmönnum þess hafi því fækkað um 1.500 frá árinu 2005. Á sama tíma hafi starfsfólki FME fjölgað í 120 eða 1 starfsmann á hverja 25 starfsmenn á fjármálamarkaði.

„Ég endurtek: Árið 2005, einn starfsmaður FME á hverja 128 starfsmenn í fjármálageiranum. Árið 2023: einn starfsmaður FME á hverja 25 í fjármálageiranum.“

Kostnaður við eftirlitið árið 2005 nam um 330 milljónum króna eða tæpum 10 milljónum á hvern starfsmann eftirlitsins að sögn Brynjólfs. Til samanburðar var kostnaður við eftirlitið árið 2023 hátt í 2.500 milljónir króna.

Kostnaður Fjármálaeftirlitsins hefur því aukist frá árinu 2005 úr tæpum 10 milljónir króna á hvern starfsmann eftirlitsins í rúmar 20 milljónir.

Fjármunum betur varið á öðrum sviðum þjóðlífsins

Brynjólfur áréttar að hann sé ekki að hallmæla skýrum reglum, eftirliti og að tekið sé á því ef reglum sé ekki fylgt.

„En ég vil beina því til stjórnmálamanna og löggjafans að ef halda á í þá orku, dugsemi og framkvæmdagleði sem ætíð hefur einkennt íslenskt atvinnulíf, sem oftar en ekki er í samkeppni við mun stærri fyrirtæki á alþjóðamarkaði, þá þarf að endurskoða íþyngjandi lög og áhrif eftirlitsiðnaðarins á atvinnulífið. Svo ekki sé talað um sívaxandi kostnað tengdan þeim iðnaði.

Útþennsla opinbers eftirlitsrekstrar krefst fjármuna sem að stórum hluta væri betur varið á öðrum sviðum þjóðlífsins, þar sem víða er aðkallandi þörf þessa stundina.“

Brynjólfur segir verðmætasköpun verða til hjá fyrirtækjum og þau verðmæti stuðli að hagsæld sem stendur undir grunnstoðum samfélagsins. Það sé því hverju samfélagi mikilvægt að efla starfsumhverfi atvinnulífsins fremur en að hamla framþróun þess.