Það tók ekki nema einn mánuð fyrir bjartsýni forstjóra stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna að dala undir nýrri ríkisstjórn Donalds Trumps.
Samkvæmt The Wall Street Journal hefur viðhorf neytenda versnað og verðbólguþrýstingur er að aukast vegna yfirvofandi viðskiptastríðs.
Þá fór ekki mikið fyrir samrunum og yfirtökum í janúar en mánuðurinn sá rólegast í fyrirtækjakaupum í meira en tíu ár.
Forstjórar sem WSJ ræddi við lýsa stöðunni með orðum eins „viðkvæm“, „óstöðug“ og „bíðum og sjáum“.
„Enginn veit hvað er í gangi,“ sagði Nick Pinchuk, forstjóri Snap-on, í viðtali við WSJ.
Ákvarðanir Trump um tolla virðast hafa haft mikil áhrif á traust forstjóra en tilkynning forsetans um að leggja 25% tolla á innflutning frá Kanada og Mexíkó kom mörgum í opna skjöldu.
Ringulreiðin hélt síðan áfram þegar Trump ákvað að fresta þeim tollum í mánuð.
Forstjórar hafa í kjölfarið verið að forgangsraða á tollamál og ákveða næstu skref fremur en að hugsa um stórar samningagerðir að svo stöddu.
Samkvæmt gögnum frá LSEG voru aðeins undir 900 samningar tilkynntir í Bandaríkjunum í janúar, samanborið við meira en 1.200 í fyrra og 1.500 fyrir tveimur árum. Þetta er merkjanlega lægri tala en á fyrri árum.
Á sama tíma hafa fyrirhugaðar reglubreytingar Trump sem áttu að liðka fyrir frekari samrunum tafist.
Samkvæmt The Wall Street Journal eru þó ekki bara ytri þættir að hafa áhrif en margar ástæður gætu legið að baki því að forstjórar séu að halda að sér höndum.
Ekki eru þó allir jafn svartsýnir.
„Flóðbylgja fyrirtækjakaupa sem allir bjuggust við 2025 er bara ekki komin enn en aðstæður eru enn þá til staðar til að það geti gerst síðar á árinu,“ segir Jim Langston, lögmaður hjá Paul, Weiss, Rifkind, Wharton & Garrison, sem sérhæfir sig í samruna- og yfirtökumálum.
Langston bendir á að þrátt fyrir óvissu síðustu mánuði sé það venjulega ekki fyrr en á öðrum ársfjórðungi eftir forsetakosningar sem samningaviðræður hefjast af meiri krafti.