Það tók ekki nema einn mánuð fyrir bjartsýni for­stjóra stærstu fyrir­tækja Bandaríkjanna að dala undir nýrri ríkis­stjórn Donalds Trumps.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal hefur viðhorf neyt­enda versnað og verðbólguþrýstingur er að aukast vegna yfir­vofandi við­skipta­stríðs.

Þá fór ekki mikið fyrir sam­runum og yfir­tökum í janúar en mánuðurinn sá ró­legast í fyrir­tækja­kaupum í meira en tíu ár.

For­stjórar sem WSJ ræddi við lýsa stöðunni með orðum eins „viðkvæm“, „óstöðug“ og „bíðum og sjáum“.

„Enginn veit hvað er í gangi,“ sagði Nick Pinchuk, for­stjóri Snap-on, í viðtali við WSJ.

Ákvarðanir Trump um tolla virðast hafa haft mikil áhrif á traust for­stjóra en til­kynning for­setans um að leggja 25% tolla á inn­flutning frá Kanada og Mexíkó kom mörgum í opna skjöldu.

Ringul­reiðin hélt síðan áfram þegar Trump ákvað að fresta þeim tollum í mánuð.

For­stjórar hafa í kjölfarið verið að for­gangs­raða á tollamál og ákveða næstu skref fremur en að hugsa um stórar samninga­gerðir að svo stöddu.

Sam­kvæmt gögnum frá LSEG voru aðeins undir 900 samningar til­kynntir í Bandaríkjunum í janúar, saman­borið við meira en 1.200 í fyrra og 1.500 fyrir tveimur árum. Þetta er merkjan­lega lægri tala en á fyrri árum.

Á sama tíma hafa fyrir­hugaðar reglu­breytingar Trump sem áttu að liðka fyrir frekari sam­runum tafist.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal eru þó ekki bara ytri þættir að hafa áhrif en margar ástæður gætu legið að baki því að for­stjórar séu að halda að sér höndum.

Ekki eru þó allir jafn svartsýnir.

„Flóðbylgja fyrir­tækja­kaupa sem allir bjuggust við 2025 er bara ekki komin enn en aðstæður eru enn þá til staðar til að það geti gerst síðar á árinu,“ segir Jim Lang­ston, lög­maður hjá Paul, Weiss, Rif­kind, Wharton & Gar­ri­son, sem sér­hæfir sig í sam­runa- og yfir­tökumálum.

Lang­ston bendir á að þrátt fyrir óvissu síðustu mánuði sé það venju­lega ekki fyrr en á öðrum árs­fjórðungi eftir for­seta­kosningar sem samninga­viðræður hefjast af meiri krafti.