Ný ríkisstjórn tók við völdum fyrir rúmri viku eftir að Katrín Jakobsdóttir ákvað að biðjast lausnar sem forsætisráðherra og bjóða sig fram til forseta. Alls færðu fjórir ráðherrar sig um set við breytingarnar og einn nýr kom inn.

Við þeim ráðherrum blasir sérstaklega erfitt verkefni þar sem þeir þurfa að koma sér inn í ný þingmál á sama tíma og þeir reyna að fóta sig í nýju ráðuneyti, við dræmar undirtektir stjórnarandstöðunnar. Aðeins tveir mánuðir eru í að þingi verði frestað.

Forsætisráðherra hefur lagt fram sjö frumvörp en þar af hefur eitt verið samþykkt. Engin fleiri mál frá forsætisráðherra eru á þingmálaskrá sem uppfærð var um síðustu áramót.

Utanríkisráðherra hefur ekki lagt fram nein frumvörp en var með tvö á þingmálaskrá.

Nýr fjármálaráðherra stökk beint í djúpu laugina í gærmorgun en Sigurður Ingi kynnti fjármálaáætlun til ársins 2029. Hingað til hafa 10 frumvörp frá fjármálaráðherra verið samþykkt og þrettán til viðbótar verið lögð fram en fimm mál sem voru á þingmálaskrá bíða enn.

Frá innviðaráðherra hafa átta frumvörp verið samþykkt og sjö til viðbótar eru til meðferðar innan þingsins en átta mál sem voru á þingmálaskrá hafa ekki verið lögð fram.

Nýr matvælaráðherra er síðan með nóg á sinni könnu en Bjarkey Olsen hefur þegar þurft að svara fyrir nýsamþykktar breytingar á búvörulögum. Tvö frumvörp til viðbótar hafa verið samþykkt frá matvælaráðherra og tvö verið lögð fram en þrjú af þingmálaskrá hafa ekki enn verið lögð fram.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.