Þekktir fjárfestar úr Kísildalnum í Kaliforníu hafa sett saman pólitíska aðgerðarnefnd (PAC) til að styrkja framboð Donalds Trumps til forseta.
Samkvæmt Financial Times eru Joe Lonsdale, stofnandi Palantis Technologies, vísifjárfestirinn Douge Leone sem er einnig stofnandi Sequoia Capital og Winklevoss-tvíburarnir búnir að styrkja America PAC á síðustu dögum.
Pólitíska aðgerðarnefndin var stofnuð í síðasta mánuði og hefur nú þegar safnað 8,7 milljónum bandaríkjadala sem samsvarar um 1,2 milljörðum króna á gengi dagsins.
Samkvæmt heimildarmönnum FT stefnir Elon Musk, forstjóri Tesla og eigandi samfélagsmiðilsins X, að því að styrkja nefndina á allra næstu dögum.
Kolanámujöfurinn Joe Craft og Jimmy John Liautaud, stofnandi Jimmy Johns samlokukeðjunnar, gáfu 1 milljón dala hvor á meðan Cameron og Tyler Winklevoss gáfu 250 þúsund dali hvort.
Kísildalurinn hefur lengi vel verið meðal frjálslyndustu svæða Bandaríkjanna en forstjórar tæknifyrirtækjanna eru sagðir vera komnir með nóg af regluverki og sköttum sem hafa yfir þá dunið í forsetatíð Joe Biden.
Trump hefur á hinn bóginn lofað að verja tjáningarfrelsi og styðja við rafmyntageirann sem hugnast þeim enn betur.
Trump greindi nýverið frá því að JD Vance yrði varaforsetaefni sitt en Vance hefur náin tengsl við marga englafjárfesta í kísildalnum. Hann starfaði hjá vísisjóði Peter Thiel, Mithril Capital, á árunum 2015 til 2017.
Thiel styrkti þingframboð Vance árið 2022 um 15 milljónir Bandaríkjadali. Jacob Helberg, framkvæmdastjóri Palantir og stuðningsmaður Trump, segir Vance vera stuðningsmann tækniþróunar og stuðningsmann America First stefnunnar.