Peninga­stefnu­nefnd Eng­lands­banka, seðla­banka Bret­lands, hækkaði rétt í þessu stýri­vexti um 50 punkta. Mun þetta vera þrettánda hækkunin í röð hjá bankanum. Stýri­vextir í Bret­landi eru nú 5% og hafa þeir ekki verið hærri síðan í apríl 2008.

Peninga­stefnu­nefndin var ekki sam­mála um hækkunina en sjö með­limir, þar á meðal Andrew Bail­ey seðla­banka­stjóri, vildu hækka um 50 punkta á meðan tveir með­limir vildu halda stýri­vöxtum ó­breyttum í 4,5%

Verðbólgan enn of há

Bretum hefur gengið illa að hemja verð­bólguna í landinu en í gær var til­kynnt að hún hefði staðið í stað á milli mánaða í 8,7%. Hag­fræðingar höfðu spá um 0,3% lækkun en svo varð ekki.

Mesta á­hyggju­efnið er kjarna­verð­bólgan, sem undan­skilur mat­væla- og orku­verð. Hún hækkaði milli mánaða úr 6,8% í 7,1% og hefur hún ekki verið hærri í þrjá ára­tugi.

Þurfa kreppu til að leysa hnútinn

Karen Ward, hag­fræðingur hjá JP Morgan og efna­hags­ráð­gjafi Jeremy Hunt fjár­mála­ráð­herra, sagði í gær að Eng­lands­banki verður að „búa til“ efna­hags­kreppu ef það á að ná tökum á verð­bólgunni.

Matar­­verð­bólga í Bret­landi lækkaði ör­lítið milli mánaða en er enn þá gríðar­­lega há. Fór hún úr 19,3% í 18,7% milli apríl og maí. Mjólk, ostur og egg kosta 27,4% meira í ár en í fyrra og halda matar­­körfunni í Bret­landi hárri.