Peningastefnunefnd Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, hækkaði rétt í þessu stýrivexti um 50 punkta. Mun þetta vera þrettánda hækkunin í röð hjá bankanum. Stýrivextir í Bretlandi eru nú 5% og hafa þeir ekki verið hærri síðan í apríl 2008.
Peningastefnunefndin var ekki sammála um hækkunina en sjö meðlimir, þar á meðal Andrew Bailey seðlabankastjóri, vildu hækka um 50 punkta á meðan tveir meðlimir vildu halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,5%
Verðbólgan enn of há
Bretum hefur gengið illa að hemja verðbólguna í landinu en í gær var tilkynnt að hún hefði staðið í stað á milli mánaða í 8,7%. Hagfræðingar höfðu spá um 0,3% lækkun en svo varð ekki.
Mesta áhyggjuefnið er kjarnaverðbólgan, sem undanskilur matvæla- og orkuverð. Hún hækkaði milli mánaða úr 6,8% í 7,1% og hefur hún ekki verið hærri í þrjá áratugi.
Þurfa kreppu til að leysa hnútinn
Karen Ward, hagfræðingur hjá JP Morgan og efnahagsráðgjafi Jeremy Hunt fjármálaráðherra, sagði í gær að Englandsbanki verður að „búa til“ efnahagskreppu ef það á að ná tökum á verðbólgunni.
Matarverðbólga í Bretlandi lækkaði örlítið milli mánaða en er enn þá gríðarlega há. Fór hún úr 19,3% í 18,7% milli apríl og maí. Mjólk, ostur og egg kosta 27,4% meira í ár en í fyrra og halda matarkörfunni í Bretlandi hárri.