Bæjarráð Ísafjarðarbæjar gerir skýlausa kröfu til ríkisstjórnarinnar um að umsagnarfrestur vegna áforma um hækkun á veiðigjöldum verði lengdur til að gefa öllum sveitarfélögum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Ríkisstjórn Íslands ákvað einungis að gefa viku í umsagnarfrest við frumvarpið á meðan önnur frumvörp, sem varða ekki jafn veigamikla breytingu á undirstöðuatvinnugrein, fá mun lengri tíma.
Að mati bæjarráðs Ísafjarðar gerir þetta sveitarfélögum ekki kleift að meta áhrif af áformum ríkisstjórnarinnar en ríkisstjórnin taldi heldur ekki nauðsynlegt að greina áhrifin sjálf áður frumvarpið var lagt fram.
Því ríkir mikil óvissa um áhrif þess á ýmsar byggðir víða um land.
Í andstöðu við sveitarstjórnarlög
Í samhljóða umsögn bæjarráðs segir að Ísafjarðarbær sé ekki ósammála því að útgerðir greiði sanngjarnt afgjald fyrir notkun á auðlindum sjávar. Bærinn setur þó stórt spurningamerki við þetta frumvarp.
„Umrædd breyting getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútvegssveitarfélög sem reiða sig á greinina til atvinnu og tekjuöflunar. Þrátt fyrir þessa óvissu fyrir sveitarfélög hafa engin gögn verið lögð fram um áhrif tillögunnar á landsbyggðina né einstök sveitarfélög sem er með öllu óásættanlegt,“ segir í umsögn bæjarráðs.
Að mati bæjarráðs er þetta einnig í andstöðu við 129. gr. sveitarstjórnarlaga sem kveður á um að fara eigi fram sérstakt mat á áhrifum lagabreytinga á fjárhag sveitarfélaga.
„Sagan hefur sýnt að róttækar breytingar á atvinnuveginum geta haft slæm áhrif á byggðarlög á landsbyggðinni. Ísafjarðarbær telur tillöguna bera vott um skort á skilningi á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu og stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Hækkun veiðigjalda að þessu marki getur ekki aðeins haft mikil áhrif á rekstrarforsendur fyrirtækja og samspil veiða og vinnslu, heldur einnig á fjölda samfélaga vítt og breitt um landið og er Ísafjarðarbær engin undantekning þar.“
Sem dæmi þá er vægi sjávarútvegs í útsvarsgrunni Ísafjarðarbæjar 2024, fiskveiðar 9,1% og fiskvinnsla 11,9%, byggt á gögnum Hagstofu Íslands.
„Ómögulegt er fyrir sveitarfélagið að greina áhrif innan þess tímaramma til að senda inn greinargóða umsögn.“
Stjórnvöld hafa nýverið sett á annað gjald sem ógnar byggð á Vestfjörðum en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá hafa bókanir skemmtiferðaskipa helmingast vegna innviðagjaldsins.
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, hefur fyrir Innviðafélag Vestfjarða lýst yfir miklum áhyggjum vegna fækkunar bókana skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar árið 2027.
Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Guðmundur að innviðagjaldið, sem sett hafi verið á með skömmum fyrirvara og án fullnægjandi samráðs, hafi skapað óvissu og leitt til fækkunar skipakoma.
„Ísafjarðarbær lítur svo á að hér sé enn annað gjald sem getur ógnað stöðugleika byggðar á landsbyggðinni, en nýlega hafa borist fréttir af því að innviðagjald á skemmtiferðaskip verði óbreytt sem hefur hlutfallslega mikil neikvæð áhrif á landsbyggðina,“ segir að lokum í umsögn bæjarins sem Sigríður Júlía Brynleifsdóttir bæjarstjóri kvittar undir.