Kínverska fasteignafyrirtækið Country Garden hefur stöðvað öll hlutabréfaviðskipti í kauphöllinni í Hong Kong eftir að hafa tafið birtingu á ársuppgjöri sínu. Fyrirtækið sagði í síðustu viku að það þyrfti meiri tíma til að endurskipuleggja skuldir sínar.

Country Garden stendur nú frammi fyrir slitabeiðni en fyrirtækið var í vanskilum á síðasta ári við erlenda kröfuhafa.

Samkvæmt fréttamiðlinum BBC verður fyrsti fundur vegna slitabeiðni Country Garden, sem Ever Credit Ltd lagði fram, 17. maí nk. en Ever Credit er eining innan samsteypu fasteignafjárfesta Kingboard Holdings.

„Vegna stöðugs flökts iðnaðarins og erfiðs rekstrarumhverfis sem samstæðan stendur frammi fyrir eru aðstæður að verða sífellt flóknari,“ sagði Country Garden í tilkynningu þegar það ákvað að seinka ársuppgjöri sínu.

Kínverski fasteignamarkaðurinn hefur verið í mikilli kreppu undanfarin misseri en í janúar var fasteignarisinn China Evergrande tekinn til gjaldþrotaskipta af dómstóli í Hong Kong. Fyrr í dag féllu þá einnig hlutabréf í kínverska ríkistryggða fasteignaframleiðandanum China Vanke og hafa nú aldrei verið lægri.

Vandamál innan fasteignageirans hafa einnig haft áhrif á efnahaginn í heild sinni en fasteignamarkaðurinn samsvarar um þriðjungi af öllu kínverska hagkerfinu. Stjórnvöld hafa þá reynt að kynna ýmsar aðgerðir til að auka eftirspurn eftir húsnæði.