Thyssenkrupp, stærsti stálframleiðandi Þýskalands, hyggst fækka starfsfólki sínu um 40%. Fyrirtækið varar við offramboði í Evrópu og vexti í ódýrum innflutningi frá Kína.
Stálframleiðandinn tilkynnti í dag að hann stefni á að fækka störfum um 5 þúsund fyrir árið 2030, með ýmsum hagræðingaraðgerðum og breytingum í framleiðslu. Jafnframt verði 6 þúsund stöðugildum til viðbótar „flutt til ytri þjónustuveitenda eða fækkað í gegnum sölu ákveðinna starfsþátta“.
Samhliða tilkynnti Thyssenkrupp um áform að loka vinnslustöð og draga árlega framleiðslugetu sína saman um allt að fjórðung, niður í 8,7-9 milljónir tonna.
Í umfjöllun Financial Times er bent á að þetta sé enn ein tilkynningin um fækkun starfa hjá þýsku stórfyrirtæki. Fyrirtæki á borð við Volkswagen, ZF Friedrichshafen sem sérhæfir sig í íhlutum fyrir bílamarkaðinn, Schaeffler og Bosch hafa á síðustu mánuðum tilkynnt um fækkun tugþúsunda starfa, einkum vegna horfa um minnkandi sölu á nýjum bílum í Evrópu.
Samdráttur á evrópska bílamarkaðnum, þar sem eftirspurn á undanförnum fimm árum, hefur dregist saman um tæplega 2 milljónir ökutækja, hefur sett strik í reikninginn hjá stálframleiðendum ásamt öðrum fyrirtækjum í aðfangakeðju bílaiðnaðarins.