Áströlsk stjórnvöld ætla að banna samfélagsmiðilinn TikTok á snjalltækjum á vegum hins opinbera. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Áströlsk yfirvöld fylgja þar með fordæmi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og stjórnvalda í Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi, sem hafa nú þegar bannað starfsfólki sínu að vera með smáforritið í tækjum sínum.

Bannið endurspeglar ótta vestrænna ríkja um að samfélagsmiðilinn gæti verið nýttur til að sækja gögn um fólk og deila upplýsingunum með kínversku ríkistjórninni.

Í tilkynningu frá TikTok segir að ákvörðun ástralskra yfirvalda sé lituð af pólitík. Þá sagði Lee Hunter, framkvæmdastjóri samfélagsmiðilsins í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, að engin merki væri um það að meiri ógn steðji af TikTok fremur en öðrum samfélagsmiðlum.

TikTok hefur gefið það út að það ætli að verja 1,3 milljörðum dala árlega í aðgerðir til að vernda friðhelgi einkalífs notenda sinna.

Stjórnendur TikTok kalla aðgerðirnar „Project Clover“. Þær fela meðal annars í sér opnun þriggja gagnavera á Írlandi og í Noregi. Gögn um evrópska notendur TikTok, sem nú eru geymd í gagnaverum í Singapúr og Bandaríkjunum, verða færð yfir í nýju gagnaverin.