Verðbólga í Bretlandi náði nýju 40 ára hámarki í maí og mælist nú 9,1%, samanborið við 9,0% í apríl. Ársverðbólga í Bretlandi hefur ekki verið meiri frá árinu 1982. Hagfræðingar spá því að verðbólgan fari yfir 10% fyrir haustið, að því er kemur fram í frétt Financial times.
Hækkandi matarverð knúði áfram vaxandi verðbólgu á milli mánaða. Matarverð hækkaði um 1,5% í maí, en þar af hækkaði verð á brauði, morgunkorni og kjöti hraðast.
Um fjórðungur af öllum vörum og þjónustu sem Hagstofa Bretlands mælir hækkuðu um meira en 10% í verði á milli ára. Verðhækkanir í meira en helmingi vöruflokka voru yfir 7% frá því í maí 2021.
Hugveitan Resolution Foundation telur að verðbólga muni aukast töluvert í næsta mánuði en þá komi nýlegar verðhækkanir á bensínverði fram í verðbólgutölum.
Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, gerir ráð fyrir að verðbólgan fari yfir 11% í október. Bankinn hækkaði stýrivexti úr 1,25% í 1,5% í síðustu viku.