Dagslokagengi Icelandair var 0,87 krónur eftir um 2% lækkun í viðskiptum dagsins. Mun það vera lægsta gengi í sögu félagsins en dagslokagengi Icelandair hefur einu sinni verið 0,87 krónur en það var í miðjum faraldri í október 2020.
Skömmu fyrir kórónuveirufaraldurinn stóð gengi flugfélagsins í 8,820 krónum og hefur gengið lækkað um 90% síðan þá.
Icelandair birti ársuppgjör í byrjun febrúar en félagið skilaði hagnaði í fyrra í fyrsta sinn í sex ár. Icelandair hagnaðist um 1,5 milljarða króna eftir skatta á árinu 2023, samanborið við 800 milljóna króna tap árið áður.
Gengi flugfélagsins féll um 7% í fyrstu viðskiptum eftir uppgjörið en þrátt fyrir ágætis lausafjárstöðu er félagið töluvert skuldsett.
Í lok apríl fór gengi Icelandair undir 1 krónu og þar með undir útboðsgengið í hlutafjárútboði Icelandair í september 2020 þar sem flugfélagið samþykkti boð upp á 30 milljarða króna.
Líkt og þekkt er var mikil þátttaka meðal almennings í umræddu útboði og margfaldaðist fjöldi hluthafa Icelandair að því loknu
Um 29% lækkun hjá Amaroq síðan í mars
Hlutabréfaverð málmleitarfélagsins Amaroq Minerals hefur lækkað um 14% síðastliðinn mánuð.
Dagslokagengi félagsins fór í sitt hæsta gildi í byrjun mars og stóð í 150,5 krónum og hefur gengið lækkað um 29% síðan þá en dagslokagengi félagsins var 106,5 krónur eftir viðskipti dagsins.
Amaroq sótti sér sótti 44 milljónir punda eða um 7,6 milljarða íslenskra króna í hlutafjáraukningu í febrúar og námu nýju hlutirnir um 19% af öllu útgefnu hlutafé félagsins.
Í ársuppgjöri félagsins í mars sagði Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals, félagið vel fjármagnað og að framkvæmdaáætlun miði nú að því að auka vinnslugetu námunnar í Nalunaq í 300 tonn á dag.
Hlutabréfaverð Sýnar tók við sér í dag og hækkaði gengi félagsins um tæp 4%.
Sýn sendi frá kauphallartilkynningu eftir lokun markaða í gær um að Hexatronic Group hefur undirritað viljayfirlýsingu um að kaupa hluta af Endor, sem er í eigu Sýnar og starfar m.a. á sviði þjónustu við gagnaver.
Sýn keypti íslenska upplýsingatæknifyrirtækið Endor, sem sér um að reka og stýra ofurtölvum og tengdum þjónustum í Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi og víðar, árið 2019.
Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 0,52% og var heildarvelta á markaði 2 milljarðar.