Streymisveitan Netflix ber enn höfuð og herðar yfir aðrar streymisveitur þrátt fyrir nokkra erfiða fjórðunga í fyrra. Samkvæmt árshlutauppgjöri fyrirtækisins fjölgaði áskrifendum Netflix á öðrum ársfjórðungi um rúmlega 8 milljónir sem er töluverð aukning úr 5 milljónum á sama tímabili í fyrra.
Tekjur streymisveitunnar jukust um 17% og námu 9,6 milljörðum Bandaríkjadala í fjórðungnum sem er mun meira en greinendur og fyrirtækið sjálft höfðu spáð samkvæmt The Wall Street Journal.
Uppgjörið er sagt sýna að ákvörðun Netflix um að bjóða upp á breytilega verðskrá, eftir því hvort fólk vilji losna við auglýsingar eða ekki, og að rassía fyrirtækisins gegn notendum sem deila lykilorði sé að bera árangur.
Hagnaður samstæðunnar á fjórðungnum nam 2,15 milljörðum dala sem er um 44% meira en á sama tímabili í fyrra. Heildarfjöldi áskrifenda í lok fjórðungsins nam 277,65 milljónum einstaklinga á heimsvísu.
Hlutabréfaverð Netflix hefur hækkað um tæplega 0,7% í utanþingsviðskiptum eftir að uppgjörið birtist.