Ársverðbólga í Bandaríkjunum mældist 2,4% í septembermánuði sem er 0,1% lægri en í ágúst.
Samkvæmt Financial Times höfðu hagfræðingar og greiningaraðilar spáð því að verðbólgan yrði 2,3% á ársgrundvelli og því er mælingin ofar spám greinenda.
Um er þó að ræða sjötta mánuðinn í röð sem vísitala neysluverðs lækkar í Bandaríkjunum.
Kjarnaverðbólga sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í orku- og matvælageiranum hækkaði þó milli mánaða og mældist 3,3% á ársgrundvelli. Um er að ræða 0,1% hækkun frá ágústmánuði.
Um er að ræða síðustu verðbólgutölurnar sem verða birtar í Bandaríkjunum fyrir forsetakosningarnar 5. nóvember. Hátt vöruverð hefur verið að gera framboði Kamala Harris forsetaefni Demókrata sérstaklega erfitt fyrir samkvæmt FT.
Bandaríski seðlabankinn ákvað í síðasta mánuði að hefja vaxtalækkunarferli sitt með 50 punkta lækkun en von er á næstu vaxtaákvörðun í næstu viku.
Samkvæmt FT er seðlabankanum að takast hið ótrúlega með því að ná verðbólgunni niður án þess að höggva í vinnumarkaðinn. Í síðasta mánuði fjölgaði störfum um 254 þúsund en greiningaraðilar höfðu spáð um 150 þúsund störfum.
Verðbólga mældist hæst 9,1% í Bandaríkjunum árið 2022 og er nú komin í 2,4% án samdráttar, hagfræðingum til mikillar undrunar.
John Williams, bankastjóri seðlabankans í New York, sagði í samtali við FT í vikunni að seðlabankinn væri í kjörstöðu til að ná svokallaðri mjúkri lendingu.
Samkvæmt hreyfingum á skuldabréfamarkaði og vaxtaskiptasamningum telja fjárfestar meiri líkur á 25 punkta lækkun í næstu viku fremur en 50 punkta lækkun.