Gengi íslenska málmleitarfyrirtækisins Amaroq Minerals lækkaði um 2,6% í viðskiptum dagsins en gengi félagsins hefur nú lækkað um rúm 14% síðastliðinn mánuð.
Félagið, sem heldur úti víðtækum námuvinnslu- og rannsóknarheimildum á Grænlandi, framleiddi sinn fyrsta gullmola undir lok síðasta árs og rauk gengið upp í kjölfarið. Gengi Amaroq fór hæst í 209 krónur en hefur síðan þá lækkað í 168 krónur á hlut.
Hlutabréfaverð Amaroq hefur þó enn hækkað um rúm 18% síðastliðið ár.
Gengi Símans lækkaði einnig í viðskiptum dagsins er gengið fór niður um rúm 2% í tæplega 42 milljón króna viðskiptum.
Dagslokagengi félagsins var 13,8 krónur en Síminn lækkaði afkomuspá sína á dögunum vegna 400 milljón króna sektar vegna enska boltans sem Hæstiréttur staðfesti í síðustu viku.
Hlutabréfaverð Iceland Seafood International hækkaði um tæp 1,5% í örviðskiptum í dag og var daglokagengi félagsins 5,35 krónur á hlut.
Í nýbirtu ársuppgjöri félagsins kom fram að félagið skilaði 1,1 milljarða króna hagnaði í fyrra eftir töluvert tap á árinu á undan. Gengið rauk upp í 5,5 krónur á hlut en hefur dalað örlítið síðan þá. Heildarhækkun félagsins á árinu nemur um 6%.
Úrvalsvísitalan OMXI15 byrjar marsmánuð á 0,21% hækkun en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í dag lækkaði heildarmarkaðsvirði skráðra félaga um 153 milljarða í febrúar. Heildarvelta á markaði nam 2,3 milljörðum.