Hlutabréfaverð flugfélagsins Play lækkaði um 4,6% í 9 milljón króna viðskiptum í dag. Dagslokagengi flugfélagsins var 1,66 krónur.
Play birti farþegatölur fyrir opnun markaða í gær en flugfélagið flutti 187.960 farþega í ágústmánuði sem er um 1,8% fleiri farþegar en á sama tímabili í fyrra.
Dagslokagengi Play hefur farið úr 7,85 krónum í 1,66 krónur á árinu sem samsvarar um 79% lækkun.
Heildarvelta í Kauphöllinni var ekki nema 2,2 milljarðar í dag og fór úrvalsvísitalan OMXI15 niður um 0,73%.
Mesta velta var með bréf Arion banka sem lækkuðu um tæp 2% í 617 milljón króna viðskiptum.
Hlutabréfaverð Íslandsbanka lækkaði einnig um 2% í afar litlum viðskiptum í dag. Þá fór gengi Alvotech niður um 1,62% á meðan gengi Eimskips lækkaði um 1,7%.