Almennur dómstóll Evrópusambandsins (e. General Court) hefur fallist á niðurstöðu Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) íslenskum stjórnvöldum í vil varðandi vörumerkið ICELAND.

Dómstóllinn hafnaði í dag kröfum Iceland Foods Ltd. um ógildingu á niðurstöðu EUIPO, sem komst að þeirri niðurstöðu árið 2019 að vörumerkjaskráning verslunarkeðjunnar á orðmerkinu ICELAND væri ógild í heild sinni.

„Niðurstaðan er staðfesting á því að Iceland Foods Ltd. getur ekki lengur hindrað að íslensk fyrirtæki auðkenni sig með upprunalandinu við markaðssetningu í Evrópusambandinu á vörum sínum og þjónustu. Málið varðar því grundvallarhagsmuni íslenskra fyrirtækja í utanríkisviðskiptum,“ segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.

„Við fögnum auðvitað afdráttarlausri niðurstöðu okkur í vil í þessu mikilvæga máli fyrir hagsmuni lands og þjóðar“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.

„Það skiptir höfuðmáli fyrir fyrirtækin okkar að geta vísað til upprunans, til hreinleikans og til sérstöðu okkar á alþjóðavettvangi. Það felast verðmæti í heiti landsins og við stöndum áfram vörð um þessa hagsmuni fyrir Ísland.“

Íslensk stjórnvöld, í samstarfi við Íslandsstofu, Samtök atvinnulífsins og Icelandic Trademark Holding ehf., hafa farið fyrir ógildingarkröfum Íslands á vettvangi Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) frá árinu 2016. Krafa íslenska ríkisins um ógildingu orðmerkisins og orð- og myndmerkisins ICELAND byggðist á því að vörumerkið uppfyllti ekki lagaskilyrði til að fást skráð sem vörumerki í Evrópusambandinu.

Árið 2019 féllst Evrópska hugverkastofan á allar kröfur íslenska ríkisins er hún komst að þeirri niðurstöðu að vörumerkjaskráning verslunarkeðjunnar Iceland Foods Ltd. á orðmerkinu ICELAND væri ógild í heild sinni. Áfrýjunarnefnd EUIPO staðfesti síðar þá niðurstöðu í öllum atriðum í desember 2022.

Iceland Foods Ltd. vísaði í kjölfarið niðurstöðu EUIPO til dómstóls Evrópusambandsins til ógildingar. Íslensk stjórnvöld hafa ekki beina aðild að því máli, en skiluðu engu að síður skriflegum athugasemdum og tóku þátt í munnlegum málflutningi til stuðnings niðurstöðu EUIPO í ljósi augljósra hagsmuna af niðurstöðunni.

Málsaðilar hafa áfrýjunarheimild, einungis að því er varðar túlkun lagaákvæða og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, innan tveggja mánaða frá niðurstöðu.