Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að netverslun áfengis sé enn á gráu svæði og það liggi ekki nægilega skýrt fyrir hvað megi og hvað megi ekki. „Þetta framtak Heimkaupa sýnir hvað gatið í löggjöfinni er að bjóða upp á og þörfina fyrir að skýr lagarammi sé settur um innlendar vefverslanir með áfengi. Við fylgjumst að sjálfsögðu vel með framvindu þessara mála.“
Frumvarp um að heimila smásölu innlendra vefverslana með áfengi, sem Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram í mars, náði ekki fram að ganga fyrir þinglok. Pálmi Jónsson, forstjóri Heimkaupa segir það ekki hafa nein áhrif á fyrirtækið.
„Það er stór munur á því að íslensk fyrirtæki selji áfengi sjálf annars vegar og hins vegar að erlend fyrirtæki selji áfengi á netinu. Við erum fyrst og fremst að dreifa þessari vöru, eins og við gerum með aðrar vörur.“
Í greinargerð frumvarpsins, sem átti að jafna stöðu innlendra og erlendra söluaðila áfengis, er bent á að í lögum sé ekki fjallað um viðskipti almennings með áfengi við erlendar verslanir, t.d. í gegnum vefverslanir. Í samtali við Viðskiptablaðið fyrr í mánuðinum sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að hann stefndi á að leggja fram sambærilegt frumvarp í haust. „Ég lít þannig á að það sé ákveðin réttaróvissa í þessu máli enn sem komið er. Sérstaklega af því að þetta frumvarp fór ekki í gegn.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.